Miðunarbúnaðurinn nýttist ekki

TF-GNA.
TF-GNA. mynd/Landhelgisgæslan

„Aðstæður voru með þeim hætti að GSM-leitin úr þyrlunni nýttist ekki,“ segir Baldvin Hansson hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Rögg sem þróaði miðunarbúnað sem er um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og notaður er við leit að fólki. Ekki reyndist unnt að þrengja leitarsvæði með búnaðinum aðfaranótt mánudags þegar pólsks karlmanns var leitað.

Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar óskaði eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar klukkan 02.10 aðfaranótt mánudags við leit að manni sem saknað var á Reykjanesi. Þar sem hann var með kveikt á farsíma tók þyrlan með búnað sem miðar út sendingar síma. Þyrlan var við leit til klukkan 05.15. Baldvin segir að ekki hafi með búnaðinum tekist að safna gögnum sem hægt var að nota í leitartilgangi.

Eins og fram kom á mbl.is fannst maðurinn klukkan 12.10 á Miðnesheiði norður af öryggisgirðingu sem afmarkar haftasvæði Keflavíkurflugvallar. Hann var látinn þegar komið var að honum.

Guðbrandur Örn Arnarsson, stjórnandi leitarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gærmorgun að einhverjar upplýsingar hefðu fengist með símamiðun.  „Það var reynt að miða hann út í nótt [farsíma mannsins] en það komu mjög ónákvæmar upplýsingar út frá símamiðun. Það eru mjög fáir sendar hérna á Reykjanesinu og þess vegna mjög erfitt að fá einhverja almennilega miðun. En það bárust einhverjar smáupplýsingar sem verið er að vinna úr.“

Þessar upplýsingar, segir Baldvin, fengust ekki með símamiðun úr þyrlunni. Aðeins hafi fengist upplýsingar frá símafyrirtækjunum úr almenna símkerfinu og þær mælingar séu mun gisnari en mælingar sem þyrlan getur skilað. Það skýri ónákvæmnina.

Getur þrengt leitarsvæðið mikið

Nokkuð var fjallað um GSM-miðunarbúnaðinn haustið 2013 þegar hann var notaður við leit að ferðamanni sem týndist uppi á jökli. Þá lýsti Óskar Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, sem fékk hugmyndina að búnaðnum virkninni á þennan hátt: „Samkvæmt stærðfræðilegum útreikningum þá getur kerfið staðsett menn á 60x60 metra svæði, líkt og á handboltavelli, sem er mjög mikil þrenging á leitarsvæði. Við höfum prófað þetta í nánast hvernig umhverfi sem er t.d. á jöklum og í jökulsprungum og árangurinn er góður. Þetta er því mikil bót fyrir leitarstarf.“

Skilyrði fyrir notkun tækisins er að sá týndi sé með kveikt á GSM síma. Um er að ræða færanlega GSM móðurstöð með fylgibúnaði sem staðsett er í þyrlu. Með búnaðnum verður hægt að staðsetja þann týnda með töluverðri nákvæmni á skömmum tíma. Flogið er með stöðina um leitarsvæðið og búin til GSM-þjónusta til þess að vekja símann, ef kveikt er á honum. Hefur hann sjálfkrafa samband við GSM-kerfið um borð í þyrlunni. Er síminn miðaður út og eru þá leitaraðilar komnir með staðsetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert