Kláruðu deigið á tveimur tímum

„Þetta gekk framar björtustu vonum. Við tókum deig sem var áætlað að dygði okkur í tæpa tvo daga en það sprakk allt; símkerfið, það var biðröð úti, og við afgreiddum þetta allt út á sirka einum og hálfum til tveimur tímum,“ segir Kristján Þór Jónsson, Kiddi Big Foot, um opnun Pizza 67 í Langarima í Grafarvogi í dag.

Vanir og reyndir menn í pítsugerðarbransanum töldu Kidda og félaga bjartsýna þegar þeir ákváðu að eiga tveggja daga skammt af degi fyrir opnunardaginn, en það margborgaði sig þar sem 500 pítsur flugu út á örskömmum tíma.

Kiddi segir að vel hafi mátt merkja að margir þeirra sem lögðu leið sína í Langarima í dag voru aðdáendur Pizza 67 í denn. „Já, það var mikið af fólki sem kom hérna bara með vatnið í munninum greinilega, og skoðaði ekki einu sinni matseðilinn heldur sögðu bara númer,“ segir Kiddi, en matseðill staðarins er óbreyttur frá því sem var.

Vinsælasta pítsan á seðlinum var Supreme að sögn Kidda, en á henni er skinka, pepperoni, nautahakk, ferskir sveppir, laukur, paprika, ananas og auka ostur. Ekki var annað að sjá en að svöngum líkaði vel.

„Ég gat ekki séð annað en að þeir væru ánægðir. Við gerðum hérna tvö, þrjú mistök og létum þær pítsur ganga um salinn, og fólk var hæstánægt með það. Við sáum bros á hverju andliti.“

Starfsmenn staðarins verða önnum kafnir við deiggerð í nótt, en deigið er m.a. gert úr sérstöku hveiti. Meira gefur Kiddi ekki upp, þar sem uppskriftin er háleynileg.

Opna Pizza 67 í Reykjavík í kvöld

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert