Opna Pizza 67 í Reykjavík í kvöld

Kristján Þór Jónsson og jólasveinn bragða á pítsu frá Pizza …
Kristján Þór Jónsson og jólasveinn bragða á pítsu frá Pizza 67. Af Facebook-síðu Pizza 67

„Leyniuppskriftirnar voru vel faldar, það tók langan tíma að grafa þær upp. Fyrri eigendur voru með þær á háaloftum og í kjallara og því þurfti að fara í tiltekt áður en þær komu í ljós,“ segir Kristján Þór Jónsson, betur þekktur sem plötusnúðurinn Kiddi Big Foot.

Veitingastaðurinn Pizza 67 verður opnaður á ný á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Kiddi, Anton Traustason og Ólafur Már Tryggvason eru nýir eigendur staðarins og taka við keflinu af þeim Georgi Georgiou, Gísla Gíslasyni og Einari Kristjánssyni sem ráku staðina fyrir nokkrum árum.

Fyrsti staðurinn var opnaður hér á landi fyrir 22 árum en í dag er einn Pizza 67 staður í Vestmannaeyjum og einn í Færeyjum.

Leyndust uppi á háalofti

„Þetta byrjaði allt sem grína á milli vina fyrir þremur mánuðum um að við ættum að opna pítsastað og umræðan datt alltaf að því að þetta yrði að vera 67,“ segir Kiddi í samtali við mbl.is.

Við tók annasamt ferli sem snerist aðallega um að finna réttu uppskriftirnar, láta framleiða rétta pepperóníið sem er sérblandað fyrir staðina og útvega rétta hveitið en þeir félagar áttuðu sig fljótlega á því að hveiti er ekki aðeins hveiti.

„Leyniuppskriftirnar voru vel faldar, það tók langan tíma að grafa þær upp. Fyrri eigendur voru með þær á háaloftum og í kjallara og því þurfti að fara í tiltekt áður en þær komu í ljós,“ segir Kiddi.

Fyrri eigendur himinlifandi með pítsurnar

Að lokum var allt til reiðu og bökuðu félagarnir pítsur í heila viku og buðu nokkur hundruð manns að koma í heimsókn til að smakka pítsurnar.

„Fólk var meira að segja ánægt með pítsuna sem við vorum óánægðir með en maður sá brosið stækka með hverjum deginum þegar við fórum að laga til hveitið og prófa annað. Í lokin, þegar við fundum að allt smellpassaði, þá kölluðum við til gömlu eigendurna og þeir voru himinlifandi. Það var bros allan hringinn hjá öllum,“ segir Kiddi.

Staðurinn verður til húsa í Langarima 21 í Grafarvogi. „Við völdum þennan stað þar sem þetta er stórt hverfi, þarna er fjölskyldufólk og við vildum vera í inni í hverfinu. Staðurinn er í lítilli, heimilislegri verslunarmiðstöð,“ segir Kiddi.

Í desember verður staðurinn opinn frá kl. 11.30 til 21 á virkum dögum og til kl. 23 á föstudögum og um helgar. Matseðilinn er væntanlegur inn á Facebook-síðu Pizza 67 í dag.

Facebook-síða Pizza 67

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert