Blönduð byggð á lóð RÚV

Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum skipulagshugmyndum um nýja …
Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum skipulagshugmyndum um nýja blandaða byggð. Ljósmynd/RÚV

Þrjár samþykktir er snúa að lóð og húsnæði Ríkisútvarpsins við Efstaleiti voru samþykktar í borgarráði í dag. Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag var samþykktur leigusamningur þar sem Reykjavíkurborg tekur á leigu stóran hluta Útvarpshússins til fimmtán ára en þar stendur til að starfrækja þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða.

Einnig var samþykkt forsögn að samkeppnislýsingu um deiliskipulag Efstaleitis. Samhliða því staðfesti borgarráð samkomulag við Ríkisútvarpið um lóðina. Reykjavíkurborg ráðstafar 20% af byggingarétti á reitnum til uppbyggingar leiguhúsnæðis en stefnt er að því að á reitnum rísi fjölbreytt byggð með blönduðum búsetuúrræðum.

Keppnin skili framsæknum hugmyndum

Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum skipulagshugmyndum um nýja blandaða byggð, spennandi almenningsrými og fjölbreytta vistvæna samgöngumáta. Áhersla er lögð á að yfirbragð góðrar byggingarlistar einkenni svæðið og að það státi af heildstæðum götumyndum.

Auk almennra séreignaríbúða og möguleika á uppbyggingu verslunar og þjónustu verður tryggt að einnig verði leiguíbúðir á reitnum. Borgarstjóri og útvarpsstjóri opna samkeppnina formlega í næstu viku en umsóknarfrestur um þátttöku í forvali verður tvær vikur frá því að opnað verður fyrir umsóknir.

Leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, íbúðir Félagsbústaða

Þá var einnig samþykkt samkomulag milli Ríkisútvarpsins og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á lóð Ríkisútvarpsins. Helstu ákvæði samningsins eru að 20% af byggingarrétti renni til Reykjavíkur sem muni fara í uppbyggingu leiguhúsnæðis.

RÚV mun selja afganginn á markaðsverði og að búsetuform á svæðinu verði blandað; leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, íbúðir Félagsbústaða og Reykjavíkurhús. Með þessum áfanga tekur Reykjavíkurborg skref í átt að þéttingu byggðar.

Ríkisútvarpið hefur lýst því yfir að það stefni að því að nýta betur lóðina við Efstaleiti og nýta fjárhagslegan ávinning til að lækka skuldir, en fram hefur komið að uppsafnaður skuldavandi félagsins er mikill. Líklegt er að lóðin verði seld á síðari stigum en nú er stefnt að því að Ríkisútvarpið verði áfram í hluta Útvarpshússins, líkt og kemur fram í tilkynningi. 

Stefnt er að því að nýta lóðina við Efstaleiti betur.
Stefnt er að því að nýta lóðina við Efstaleiti betur. Ljósmynd/RÚV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert