Andlát: Einar Öder Magnússon

Einar Öder Magnússon.
Einar Öder Magnússon. Skjáskot af Youtube

Einar Öder Magnússon, reiðkennari, hrossaræktandi og fyrrverandi landsliðsmaður í hestaíþróttum í Halakoti í Flóa lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gærmorgun, 52 ára gamall, eftir langvarandi veikindi, en Einar hafði lengi barist við krabbamein.

Einar fæddist á Selfossi 17. febrúar 1962 og hefði því orðið 53 ára í dag. Hann var næstelstur þriggja systkina, sonur hjónanna Magnúsar Hákonarsonar rafvirkja úr Vík í Mýrdal sem er látinn og Tove Øder Hákonarson húsmóður sem er fædd og uppalin í Ølstykke Danmörku.

Einar ólst upp á Selfossi og bjó þar og í næsta nágrenni mestalla ævi, fyrir utan eitt ár í Danmörku er hann var á barnsaldri og á námsárunum í Noregi, en hann lauk prófi í búfræði frá Vinter Landbruksskolen.

Einar var einn fremsti hestamaður landsins og vann til fjölmargra verðlauna bæði innanlands og utan. Hann var landsliðsþjálfari Íslands í hestaíþróttum og starfaði víða í þágu íslenska hestsins. Hann var margfaldur Norðurlandameistari, keppti á fjölmörgum heimsmeistaramótum fyrir Íslands hönd og var liðsstjóri íslenska landsliðsins og seinna landsliðseinvaldur og starfaði ötullega að framgangi íslenska hestsins bæði innanlands og utan.

Á ferli sínum var Einar sæmdur ýmsum verðlaunum og viðurkenningum, m.a. gullmerki Félags tamningamanna og í síðasta mánuði var hann sæmdur gullmerki Landssambands hestamannafélaga fyrir framlag sitt til hestamennskunnar. „Það sem skapar afreksmann eins og Einar, sem einnig nýtur virðingar sem persóna, er næmni, auðmýkt og sýn á verkefni hestamennskunnar og vilji til að miðla af jákvæðni og ástríðu,“ sagði í tilkynningu frá landssambandinu við þetta tilefni.

Einar hóf að starfa við reiðkennslu á námsárunum í Noregi. Kennslan var hans aðalstarf síðastliðin ár og kenndi hann aðallega erlendis, mest í Skandinavíu, en einnig í Austurríki, Sviss og Þýskalandi.

Einar var kvæntur Svanhvíti Kristjánsdóttur, bónda og tamningamanni. Þau eiga fjögur börn þau Hildi Öder, Magnús Öder, Dagmar Öder og Hákon Öder.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert