Vetrarlegt í Ólafsfirði

Það er fátt sem minnir á sumar í Ólafsfirði í …
Það er fátt sem minnir á sumar í Ólafsfirði í dag. Ljósmynd Lára Stefánsdóttir

Það er fátt sem minnir á sumar og grill í Ólafsfirði í dag en þar er allt á kafi í snjó. Skólaakstur á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar fellur niður í dag en mikið fannfergi er á þessum slóðum.

Búast má við vetrarfærð og erfiðum akstursskilyrðum víða á norðan og austanverðu landinu í dag. Heldur skárra veður á morgun, en þó áfram nægur vindur til að mynda skafrenning. Lægir svo um munar annað kvöld og aðfaranótt miðvikudags, segir í athugasemd frá veðurfræðingum hjá Veðurstofu Íslands.

„Lítið lát er á ofanhríðinni með skafrenningsskófi norðanlands í dag, ekki síst í Eyjafirði og þar austur af.  Austanlands skánar upp úr miðjum degi, rofar til, dregur heldur úr vindi og hlánar á láglendi. Áfram snarpar vindhviður, 35-45 m/s suðaustanlands í allan dag og fylgir staðbundið sandfok á þeim slóðum.  Skafrenningur og él enn um sinn á norðvestantil á landinu og þá bætir heldur í vind SV-lands með hviðum um 35 m/s á Kjalarnesi,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hólasandi og á Hófaskarði, hálka og stórhríð er á Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum. Lokað er á Fjarðarheiði og ófært er á Vatnsskarði eystra en þæfingur og skafrenningur er á Fagradal, Oddsskarði og á Vopnafjarðarheiði en hálka á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar.

Mikið hvassviðri er í Hamarsfirði og sandfok á Suðausturlandi en vegir greiðfærir.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðan 13-18 m/s, en 18-23 í vindstrengjum á SA-landi og S-verðum Austfjöðrum. Snjókoma og skafrenningur N- og A-lands, en skýjað og þurrt að kalla annars staðar. Norðaustan 8-15 m/s á morgun. Él og skafrenningur á N- og A-verðu landinu, en bjartviðri SV-til. Frost víða 0 til 5 stig, en rétt yfir frostmarki syðst og austast síðdegis. Hlýnar heldur á morgun.

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið. Éljagangur er á Hellisheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en eitthvað er um hálkubletti. Hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði og í Svínadal. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Ófært og stórhríð er á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er norður í Árneshrepp, snjóþekja og stórhríð er á Þröskuldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert