„Það eru allir á móti þessu“

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að þetta sé endurómur af því að í langan tíma hafa menn gert kvótakerfið að einhverjum óvini og halda að með þessu frumvarpi sé verið að setja makrílinn inn í samskonar kerfi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra um óánægju vegna makrílfrumvarps hans. Hann segir þó að þvert á móti sé verið að fara sérstaka leið því makríllinn sé nýr og að því leytinu einstakur miðað við aðra stofna. 

Nú hafa 25 þúsund skrifað undir áskorun til forseta Íslands á vefsíðunni thjod­ar­eign.is um að vísa öllum þeim lögum sem Alþingi samþykkir um ráðstöfun fiskveiðiauðlinda, til lengri tíma en eins árs, til þjóðarinnar. Kveikjan að síðunni var frumvarpið, en aðstandendur síðunnar telja það fela í sér grund­vall­ar­breyt­ingu á til­hög­un fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins sem ekki verði hægt að afturkalla.

Ekki langur tími þegar talað er um stöðugleika

Í makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra er lagt til að veiðiheimildum verði úthlutað til sex ára í senn. Fram að þessu hefur þeim verið úthlutað ótímabundið. Sigurður Ingi segir það ekki langan tíma og langt í frá að það sé varanleg úthlutun. „Það má ekki vera styttri tími þegar talað er um stöðugleika,“ segir hann.

„Maður veltir því fyrir sér á hvaða grunni þessi undirskriftasöfnun er, að því leyti að með þessu frumvarpi er verið að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna sem uppi eru með makrílinn. Hann er nýr stofn sem ekki hefur verið settur inn og þess vegna er verið að fara aðra leið.“

Inntak frumvarpsins hafi ekki náð í gegn

Sigurður Ingi segir að hann hefði betur skilið undirskriftarsöfnunina og viðbrögðin ef um væri að ræða að hlutdeildarsetja makrílinn inn í kvótakerfið með ótímabundinni hlutdeildarsetningu. „En af því að við erum að tímabinda hlutdeildarsetninguna og til viðbótar að leggja verulegt viðbótargjald sem á þessum sex árum skilar ríkinu níu milljörðum króna ef af verður, þá er eins og inntak frumvarpsins hafi ekki náð alveg í gegn,“ segir hann. 

Bendir hann á að í Danmörku sé makríl úthlutað, til að byrja með hafi það verið til sex ára í senn en því hafi verið framlengt til átta ára. „Þar hef ég ekki orðið var við umræðu um það að með því að gefa út veiðileyfi til þetta margra ára og hækka gjald sé verið að gefa neinum manni neinn kvóta. Auðvitað er þetta allt þjóðareign alveg eins og hér.“

Fer að áliti umboðsmanns Alþingis

Þá vísar sjáv­ar­út­vegs­ráðherra til þess álits umboðsmanns Alþing­is að stjórn­völd­um hafi verið skylt að annaðhvort hlut­deild­ar­setja mak­ríl­inn eða setja sér­lög um hann frá ár­inu 2011. Nú sé ráðuneyti hans að bregðast við því með því að leggja fram frum­varp að sér­lög­um sem byggist á þeim lög­mætu vænt­ing­um sem síðasta rík­is­stjórn hafi gefið til þeirra sem stunduðu mann­eld­is­vinnslu á mak­ríl. Sex ára gild­is­tími sé lág­marks­tími fyr­ir þann fyr­ir­sjá­an­leika sem at­vinnu­grein­in þurfi til að geta fjár­fest og byggt upp sjáv­ar­út­veg­inn.

„Við getum ekki haldið áfram og ætlað ekkert að gera í þessu. Framkvæmdavaldið getur það hreinlega ekki og það eru sannarlega lögsóknir á hendur ríkinu fyrir þær leiðir sem farið var og við erum að reyna að leysa úr því innan íslenskra laga,“ segir hann og heldur áfram. „Það má því spyrja sig hvort undirskriftasöfnunin sé að fara fram á að við förum ekki að áliti umboðsmanns.“

Útgerðin vildi ekki fara þessa leið

Þá bendir Sigurður Ingi á að þessi lög séu sérlög um hlutdeildarsetningu á makríl, en þau víki ekki frá almennu löggjöfinni um stjórn fiskveiða á nokkurn hátt. „Fyrsta greinin sem fjallar meðal annars um að auðlindir hafsins séu þjóðareign er auðvitað eins mikilvæg í þessu og öðru.“

Þá segir hann útgerðina í heild sinni ekki hafa viljað fara þessa leið. „Til dæmis þeir sem eru að lögsækja ríkið voru að fara fram á að hlutdeildarsetning yrði gerð á grundvelli reglugerðar, en ekki sem lög, og þannig að um ótímabundna úthlutun væri að ræða sem yrði svo úthlutað til eins árs,“ segir hann. „Það eru einhvern veginn allir á móti þessu.“

Þjóðin fái stærri hlutdeild en ella

Frumvarpið hefur farið í fyrstu umræðu á Alþingi og skiptar skoðanir voru á framkvæmd þess. Sigurður Ingi segir það þó eðlilegt, en mikilvægt sé að líta til raunverulegs tilgangs frumvarpsins. 

„Við erum að reyna að fara millileið sem annars vegar tryggir fyrirsjáanleika, viðheldur með mjög skýrum hætti eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindinni og að það sé eðlilegt að eigandinn, þjóðin, fái aukna hlutdeild í fyrstu úthlutun. Við vitum að einhverjir munu selja frá sér sinn hlut og þess vegna er viðbótargjaldið til að tryggja að eigandinn, þjóðin, fái stærri hlutdeild í því en ella.“

Frétt mbl.is: Tæp 21.000 hafa skrifað undir áskorun

Frétt mbl.is: 14.700 vilja makrílkvóta í þjóðaratkvæði

Frétt mbl.is: Undirskriftasöfnun vegna makrílsins

Makríll.
Makríll. mbl.is/Helgi Bjarnason
Þónokkur fjöldi vill að forseti vísi lögum um fiskveiðiauðlindir í …
Þónokkur fjöldi vill að forseti vísi lögum um fiskveiðiauðlindir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skjáskot af vefnum Þjóðareign.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert