Sjaldan daufara í heimi skordýranna

Rauðhumla. Drottningar hafa verið á ferðinni, en þernurnar bíða.
Rauðhumla. Drottningar hafa verið á ferðinni, en þernurnar bíða. Ljósmynd/Erling Ólafsson

„Ég man ekki eftir jafn daufum maímánuði í heimi skordýranna, en þetta fer þó allt af stað um leið og hlýnar. Til þessa hefur verið lítið flug og það litla sem sást á yfirborði af ánamöðkum og öðru lífi hirti lóan hlaupandi um allar grasflatir. Meira að segja hrossaflugur halda sig til hlés, en af þeim ætti að vera talsvert á húsveggjum þessa dagana.“

Þannig lýsir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun, vorkomunni í heimi skordýranna. Spurður um humlur segir hann að fólk verði vart við bæði húshumlu og rauðhumlu þessa dagana, en eingöngu drottningar séu á ferðinni.

Orkulindin víðireklar

„Þær eru að vakna af vetrardvalanum, en þernurnar láta ekki sjá sig fyrr en eftir um mánuð. Um þetta leyti ætti traffíkin að vera eins og á flugstöð, en skýringin kann að vera sú að víðirinn blómstrar mun seinna en venjulega. Víðireklarnir eru mikilvægasta orkulindin hjá humlunum í maí og þær eru í raun háðar því að komast í víðirekla, sem gefa þeim bæði blómasafa og frjókorn,“ segir Erling.

Hann segist telja að sein vorkoma segi lítið um hvernig sumarið verði og skordýrin séu vel aðlöguð til að mæta hremmingum eins og köldu vori. Smádýralífið bíði einfaldlega betri tíðar, en deyi ekki. Bú humlanna til dæmis gætu þó orðið fáliðaðri þegar upp yrði staðið í haust og framleiðsla minni fyrir bragðið.

Fiðrildavöktun hófst 16. apríl og segir Erling að hann hafi ekki veitt minna í gildrurnar frá því að þetta verkefni byrjaði á Tumastöðum fyrir um 20 árum, Hann hefur í um tíu ár einnig verið með gildrur á þremur öðrum stöðum undir Eyjafjöllum og að Mógilsá.

„Venjulega veiðist nokkuð hressilega í apríl þegar tegundir sem liggja vetrardvalann fullorðnar vakna snemma á vorin til að verpa og deyja að varpi loknu. Maí er alltaf daufur tími, því þá er millibilsástand eða biðtími þangað til gusa snemmsumarstegunda kemur.

Á Mógilsá var nýliðinn birkikemba áberandi og skilaði sér í gildrurnar í apríl. Núna bíða eggin þess að birkibrumið fari að springa, þá klekjast eggin og lirfurnar skríða inn í birkilaufin og skemma þau. Birkikemban hefur verið að hrella garðeigendur á suðvesturhorninu í nokkur ár og ekkert lát virðist vera á því,“ segir Erling.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert