Aldrei hærri málsvarnarlaun dæmd

Verjendur hinna ákærðu í dómsal í dag.
Verjendur hinna ákærðu í dómsal í dag. Eggert Jóhannesson

Málsvarnarkostnaður í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings nemur tæplega 263 milljónum króna, en þar af er hlutur ákærðu í málinu 165,6 milljónir, en ríkisins 97,2 milljónir. Eftir því sem mbl.is kemst næst er þetta lang hæsta upphæð sem dæmd hefur verið í málsvarnarkostnað vegna eins máls hér á landi og er t.d. rúmlega þrefalt hærri á föstu verðlagi en í Baugsmálinu.

Hreiðar þarf að greiða 32 milljónir sjálfur

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings þarf að greiða hæstu upphæðina, en af tæplega 48 milljóna kostnaði mun hann þurfa að greiða tæplega 32 milljónir. Ingólfur Helgason, forstjóri bankans á Íslandi mun þurfa að greiða um 27,5 milljónir af 58,5 milljóna kostnaði. Inn í heildarkostnaði lögmanna hans er rúmlega 17 milljóna kostnaður frá fyrri lögmanni Ingólfs. Í miðju máli var skipun hans afturkölluð þar sem ekki var útilokað að verjandi hans yrði kvaddur til sem vitni. Allur sá kostnaður féll á ríkið.

Kostnaður Magnúsar og Bjarkar fellur á ríkissjóð

Í tilfelli Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg og Bjarkar Þórarinsdóttur, fyrrverandi lánafulltrúa í lánanefnd bankans, féll allur málsvarnarkostnaður á ríkið, en Björk var sýknuð og í tilfelli Magnúsar var ákæruliðum vísað frá dómi eða hann sýknaður að öðru leyti.

Kostnaður allra ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Sundurliðað eftir því hvort …
Kostnaður allra ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Sundurliðað eftir því hvort kostnaður fellur á ákærða eða ríkissjóð. Mynd/mbl.is

Samkvæmt því sem mbl.is kemst næst eru aðeins nokkur önnur mál þar sem málsvarnarkostnaður hefur verið í svipuðum tölum, en það sem gerir þetta mál stærra í sniðum er að ákærðu í málinu voru fleiri en í öðrum málum.

Landsbankamálin og Baugsmálið

Þannig var t.d. heildar málsvarnarkostnaður í stóra markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans í heild 118 milljónir, en af þeim féllu 66,8 milljónir á ríkissjóð. Málið var tekið fyrir í fyrra í héraðsdómi, en í júní sama ár var dæmt í hinu svokallaða Ímon máli. Þar voru starfsmenn Landsbankans einnig ákærðir, en heildar málsvarnarlaun verjenda í málinu voru rúmlega 31,2 milljónir. Í þessum tveimur málum var því heildarkostnaðurinn um 150 milljónir

Í Baugsmálinu var heildar málsvarnarkostnaður ákærðu 60,3 milljónir, en á verðlagi dagsins í dag er það um 84,2 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert