Í afreksúrtak mótorhjólakvenna

Inga segist hafa tárast eins og fegurðardrottning þegar hún fékk …
Inga segist hafa tárast eins og fegurðardrottning þegar hún fékk póstinn um að hún væri komin í úrtakið. mbl.is/Árni Sæberg

Ingu Birnu Erlingsdóttur er hreint ekki fisjað saman en í maí mánuði varð hún fyrsta konan í umferðardeild lögreglunnar í sjö ár og þar með sjöunda konan í deildinni frá upphafi. Í gær bætti hún enn á afrekaskrána þegar tilkynnt var að hún hefði verið valin úr hópi 119 umsækjanda frá 28 löndum í 10 manna úrtak fyrir fyrsta alþjóðlega kvennalið GS bikars BMW sem fram fer í Taílandi snemma á næsta ári.

Í GS bikarnum keppa þriggja manna lið frá öllum heimshornum í ýmsum þrautum yfir marga daga á R 1200 GS mótorhjólum frá BMW. Hingað til hafa engar konur komist í gegnum forkeppnirnar sem haldnar eru í heimalöndum keppenda og ákvað BMW því að setja saman alþjóðlegt kvennalið til að sýna fram á að sportið sé ekki einungis fyrir karla.

Mig hefur dreymt árum saman um að komast í „offroad“ í útlöndum en þar sem ég er einstæð móðir og starfa sem lögreglumaður hef ég ekki haft mikið fé á milli handanna til að gera það,“ segir Inga Birna. „Svo sá ég þessa auglýsingu þar sem er verið að leita að tíu konum til að keppa í þessari forkeppni og ég hugsaði bara af hverju ekki?“

Þessi einfalda spurning sem heldur aftur af svo mörgum hefur verið drifkraftur í lífi Ingu Birnulengi. Hún hittir blaðamann á sólríkum degi í Grasagarðinum og eflaust myndi fæsta gruna að umræðuefni ungu kvennanna tveggja væri mótorsport, sérstaklega ef viðkomandi þekktu til undirritaðrar. Frá Ingu Birnu stafar hinsvegar þvílík lífsorka að ekki er annað hægt en að hrífast með.

„Ég tók mótorhjólapróf 2006 en hugmyndin hafði verið til staðar frá því ég var 14 ára þegar ég fékk fyrst þá flugu í hausinn að ferðast um heiminn á mótorhjóli. Þá fannst mér ekki mikið um konur á mótorhjólum og hugsunin fór ekkert lengra. Ég hugsaði að ef ég finndi mér kærasta sem ætti mótorhjól kæmist ég kannski inn í þetta. Svo einn daginn spurði ég mig „Eftir hverju ertu að bíða? Ertu að bíða eftir einhverjum öðrum til að lifa lífinu fyrir þig eða ætlarðu að lifa því sjálf?““

Inga Birna beið ekki boðana og lærði klettaklifur, keypti sér haglabyssur og hús sem hún byggði mikið til sjálf. Hún tók mótorhjólaprófið og fékk sér sitt eigið mótorhjól og nú er hún fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í forkeppni fyrir eina ævintýralegustu mótorhjólakeppni heims.

„Ég ætla ekkert að bíða eftir neinum til að kynna mig fyrir lífinu. Ég er hef gert það sjálf og ég sé ekki eftir neinu,“ segir hún ákveðin í bragði.

Bilað hjól reyndist blessun

Inga Birna komst fyrst á snoðir um kvennalið GS bikarsins í gegnum Facebook síðuna BMW GS Girls. Þá voru aðeins þrjár vikur í að umsóknarfresturinn rynni út og þurfti hún því að hafa hraðar hendur til að ná að senda inn myndband af sér að sýna listir sínar.  „Ég fékk lánaða GoPro vél en þá bilaði hjólið mitt. Ég setti saman það sem ég hafði en vildi ekki taka of mikla áhættu á lánshjólinu svo ég krosslagði bara fingur.“

Hún vaknaði svo á afmælisdaginn sinn við tölvupóst þar sem henni var tilkynnt að hún væri ein þeirra tíu sem hefðu komist í lokaúrtak fyrir aðalkeppnina. Hún og hinir níu keppendurnir munu ferðast til Suður Afríku í september þar sem við tekur sex daga undankeppni þar sem reynir á hæfni, þol og samvinnuhæfileika keppenda og munu þrír þeirra verða valdir í aðalkeppnina. Inga Birna segir að hópavinnan sé sérlega mikilvæg enda þurfi þær sem enda saman í liðinu að geta stutt hvor aðra af ráði og dáð. Þá segir hún einnig að líklega hafi það verið lán í óláni að hjólið hennar bilaði því það gaf henni tækifæri til að læra að laga það sjálf.

„Maður verður að vita hvað maður er með í höndunum því ef eitthvað bilar þarf maður að geta lagað það. Í keppninni keyrir maður ekkert á verkstæði og lætur gera við það fyrir sig svo það hjálpaði að geta sagt í umsókninni að ég hefði gert við hjólið sjálf.“

Þó svo að Inga Birna eyði öllum sínum 12 klukkustunda vinnudögum á bifhjóli segist hún þurfa að eyða frídögum sínum á fjöllum við æfingar eða í ræktinni, enda þurfi talsvert þol, bæði andlegt og líkamlegt í keppni á við GS bikarinn.

„Þú ert kannski að keyra 400 til 500 kílómetra í erfiðum aðstæðum um daginn, búin að fara yfir einhverjar ár og fljúga á hausinn nokkrum sinnum og þarft á sama tíma alltaf að geta hjálpað félögunum og haldið svo ótrauð áfram. Þegar fólk er þreytt kemur það versta fram í því og maður þarf að sýna að maður geti verið andlega til staðar þegar á reynir.“

Kyn sé ekki hæfnikrafa

Inga Birna fór í lögregluskólann árið 2004 segist hún hafa verið rekin áfram af forvitni og adrenalíni. „Mig langaði til þess að sjá lífið er ekki bara í bómull,“ segir hún. „Þetta var einhver þörf.“

Bómullin var fljót að flosna upp því árið 2008 varð hún fyrir alvarlegri líkamsárás við skyldustörf ásamt samstarfsfélaga og í kjölfarið fór hún í endurhæfingu á Reykjalundi sem hún segir hafa reynst henni ákveðin lífsbjörg. Ekki löngu eftir árásina ákvað hún að leggja inn umsókn um flutning yfir á umferðardeild lögreglunnar.

Sá flutningur tók sex ár og þó svo að Inga Birna vilji sem minnst úr því gera þykir það furðu sæta enda býr hún að haldgóðri reynslu af lögreglustörfum sem og reynslu af mótorhjólum, sem eru helsti ferðamáti umferðarlögreglumanna.

Inga Birna segist reglulega hafa ýtt á eftir umsókninni og að málið hafi loksins þokast eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Inga Birna hafnar því þó að skipt hafi sköpum að fá konu sem yfirmann og segir það einfaldlega skipta máli að hafa yfirmann sem meti ekki kyn sem hæfnikröfu, hvors kyns sem sá hinn sami kunni að vera.

Inga Birna kveðst sjálf ekki sjá sig sem fórnarlamb eða í stöðluðu kynhlutverki og að hún kjósi helst að láta verkin tala og sanna sig í starfi. Hún nefnir sem dæmi að hún sé með lægri lögreglumönnum, aðeins 1,64 á hæð og að lögreglumótorhjólin séu 340 kíló. Því hafi hæð hennar komið til tals þegar hún gekk til liðs við umferðardeildina en Inga Birna hefur sýnt og sannað að margur er knár þótt hann sé smár.

Hvað sem langri bið eftir draumastarfinu líður segist Inga Birna gríðarlega lukkuleg í starfi. „Mér var tekið rosalega vel og strákarnir eru mjög góðir við mig. Mér fannst ég stöðnuð í starfi en nú finnst mér ég komin þangað sem ég á að vera. Fyrsta daginn fannst mér ég komin heim.“

Hjólið færir frelsi

Inga Birna segir að sig langi til að hvetja fleiri konur til að stíga út fyrir kassann og prófa GS hjólin. Sjálfri finnst henni leiðinlegt að keyra eigið hjól á malbikinu og segir að sér vanti sárlega ferðafélaga til að ferðast um landið með sem sé tilbúinn til að fara út fyrir þann þægindaramma sem malbikið er.

„Það eru mjög fáar konur á svona hjólum hérna heima og mig langar svo að virkja fleiri og sýna að við getum þetta,“ segir Inga Birna. Hún telur að margar konur óttist það sem þær þekki ekki og bendir á að þess konar akstur sem hún stundi snúist sjaldnast um hraða heldur að njóta náttúrunnar og ferðast.

„Maður er svo frjáls á mótorhjólinu, með vindinn í andlitinu og lyktina af náttúrunni. Síðasta sumar var ég að keyra og sá tófu hlaupa yfir veginn og upp háa kletta. Hefði ég verið í bíl hefði ég ekki getað séð hvert hún fór en af því að ég var á hjólinu leið mér eins og ég væri að hlaupa með henni.“

Inga Birna er ekki í hefðbundnum bifhjólaklúbbi þar sem henni hefur stundum reynst erfitt að falla í hópinn sem einhleyp ung kona í hópi karlmanna. Hún vonast til þess að þetta breytist verði aukning á kvenfólki í greininni en í augnablikinu á keppnin í Suður Afríku hug hennar allan.

„Ég er ekki að fara þarna til þess að vera meðal Jón. Ég stefni hátt og ætla mér að komast í liðið. Svo nú þarf ég að vera dugleg að æfa mig og finna styrktaraðila til að styðja við bakið á mér.“

Sem betur fer virðast margir sjá að Inga Birna hefur eitthvað sérstakt fram að færa því þegar þetta er skrifað hafa Reykjavík Motorcenter, Saffran, JHM sport og Sportís samþykkt að styrkja hana.  Fyrir fáeinum árum síðan hefðu mörgum brugðið í brún ef að einstæð móðir unglingsdrengs hefði gerst svo djörf að ganga á milli fyrirtækja og biðja um styrk fyrir mótorhjólakeppni. Í dag þykir hinsvegar jafnvel unglingsdrengnum sjálfum mikið til koma og andlitið á Ingu ljómar þegar hún talar um mótorhjólaferðirnar sem þau Adam Elí, sem er 15 ára, munu fara saman í framtíðinni.

 „Um daginn sagði hann við mig „Mamma ég er búin að sjá það í gegnum tíðina að það er ekkert ómögulegt fyrir þig,“ segir hún og brosið breikkar enn meira. „Það er ómetanlegt að vita að barnið manns hafi þá sýn á lífið og móður sína.“

Eftir aðeins um klukkustundar kynni af móður hans þykir blaðamanni ljóst að Adam Elí hefur fyllilega rétt fyrir sér. Hvað sem almennum ótta við farartæki á ferð líður mun undirrituð því fylgjast grannt með Ingu Birnu á næstu mánuðum.

Aðrir áhugasamir munu jafnframt geta fylgst með henni á myridemygs.com á næstu mánuðum sem og á Facebook undir titlinum My ride My life My gs.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/LaXIbvjQC78" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
Inga verður ein 10 kvenna sem keppa sín á milli …
Inga verður ein 10 kvenna sem keppa sín á milli um þrjú sæti í kvennaliði BMW. mbl.is/Árni Sæberg
Það liðu sex ár frá því að Inga sótti um …
Það liðu sex ár frá því að Inga sótti um í umferðarlögregluna þar til hún var flutt yfir. Árni Sæberg
Inga er ansi lunkin á hjólinu eins og sjá má.
Inga er ansi lunkin á hjólinu eins og sjá má. mbl.is/Árni Sæberg
Inga Birna segir forvitni og adrenalín hafa rekið sig í …
Inga Birna segir forvitni og adrenalín hafa rekið sig í lögregluskólann. Árni Sæberg
Fléttan aftan úr hjálmi Ingu Birnu er hennar einkennismerki.
Fléttan aftan úr hjálmi Ingu Birnu er hennar einkennismerki. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert