Í Nepal í nær hálfa öld

Margir eiga um sárt að binda í Nepal.
Margir eiga um sárt að binda í Nepal. AFP

„Við höfum verið með hjálparstarf í Nepal í nær hálfa öld. Það er styrkleiki að hafa verið svona lengi þarna, við þekkjum yfirvöld og þau þekkja okkur,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi en samtökin standa fyrir söfnun vegna neyðarástandsins í Nepal í kjölfar jarðskjálftanna fyrr á þessu ári.

„Síðan er það þannig að stór hluti af starfsfólki okkar í Nepal eru heimamenn,“ bætir Sigríður við. „Það verður að tryggja ákveðna samhæfingu. Það er alveg magnað að sjá hvernig stóru hjálparsamtökin eru farin að vinna vel saman. Það vita allir hvert hlutverk þeirra er, til dæmis berum við ábyrgð á vatns- og hreinlætismálum. Það er ekki síður mikilvægt fyrir ung börn enda sýkjast þau frekar ef vatnið er skítugt.“

Fyrstu viðbrögð UNICEF þegar neyðaraðstoð brýst út er að veita lífsnauðsynlega hjálp og síðar hefst uppbyggingarstarf. Það starf er oft í gangi mörg ár eftir að fjölmiðlar hætta að fjalla um náttúruhamfarirnar. 

„Svo dæmi sé nefnt þá höfum við unnið að uppbyggingu á Haíti eftir jarðskjálftann þar í mörg ár eftir að skjálftinn varð, eyðileggingin er svo mikil.“

Vilja tryggja áframhaldandi starfsemi skóla

Hluti af uppbyggingarstarfi samtakanna í Nepal snýst nú um menntun. Komið var á laggirnar mörgum tímabundnum skólum og er nú reynt að fjármagna áframhaldandi starfsemi þeirra. Í tilkynningu frá UNICEF kemur fram að enn í dag þurfa þúsundir barna á húsaskjóli, mat, aðgang að hreinu drykkjarvatni og heilsugæslu að halda. Um það bil 1 milljón barna býr enn á svæðum þar sem talin er vera mikil hætta á skriðufalli og flóðum og býr önnur milljón barna við hættu á því að falla undir alþjóðlega skilgreiningu á fátæktarmörkum að mati yfirvalda í Nepal.

UNICEF hefur lagt fimmtán milljónir Bandaríkjadollara í hjálparstarf í alls 19 umdæmum í Nepal og nær stuðningurinn til nær 330 þúsund fjölskyldna.

Söfnunin stendur enn yfir og er meðal annars hægt að styðja við neyðaraðgerðir UNICEF í Nepal með því að heita á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu þann 22. ágúst. 

Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.
Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert