„Gerir þolendum frekar óleik“

mbl.is/GSH

„Við höfum lent í því að þolendur hafa verið að lesa um þessi mál í fjölmiðlum samdægurs og það hefur ekki verið að gera neinum gott,“ segir Hjalti Jónsson, doktor í klín­ískri sál­fræði og um­sjón­ar­maður áfallat­eym­isins í Vestmannaeyjum yfir Þjóðhátíð, varðandi þá ákvörðun lögreglustjóra að upplýsa ekki fjölmiðla strax um kynferðisbrot sem kunna að koma upp á hátíðinni.

Sjá frétt mbl.is: Munu ekki upplýsa um kynferðisbrot

Hann segir þessa breytingu á vinnureglum löreglunnar ekki hafa nein áhrif á starfsmenn áfallateymisins og heilsugæslunnar. 

„Það er ekkert nýtt sem kemur fram í þessu bréfi gagnvart okkur sem störfum í áfallateyminu og á heilsugæslunni. Hún er bara að skerpa á þagnarskylduákvæðinu og við sem höfum verið að vinna að þessum málum með þolendum á hátiðinni höfum ekki verið að fara með mál í fjölmiðla.“

Óvíst hver rökin hafa verið

„Auðvitað kemur tímapunktur síðar þar sem öll mál fara í fjölmiðla en þetta er oft mjög viðkvæmur tímapunktur akkúrat þegar fjölmiðlar hringja. Við höfum ekki séð ástæðu til þess að tilkynna um þessi mál á þeim tímapunkti, það hefði frekar gert óleik gagnvart þolendum frekar en eitthvað annað,“ segir Hjalti.

Hann segir lögregluna undanfarin ár hafa tilkynnt fjölmiðlum mjög fljótt um kynferðisbrot eða meint kynferðisbrot. Breyting verði á því núna. 

„Ég veit ekki hver rökin hafa verið fyrir því að undanfarin ár að fara með málin strax í fjölmiðla. Síðan hefur það líka gerst að það hefur verið kært en kæran svo dregin tilbaka. Það hefur líka reynst mörgum erfitt hjá okkur.“

„Mér finnst kannski með öll mál að fólk megi vera aðeins á bremsunni með að fara með þau strax í fjölmiðla,“ segir Hjalti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert