Grafalvarlegt en gæti komið á verri tíma

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. Ljósmynd/Bæjarins besta

„Þetta er fyrirtæki hefur tengst 70-80% bæjarbúa beint eða óbeint í gegnum árin. Þetta fyrirtæki hefur starfað nokkuð lengi og þessar fregnir hafa vissulega áhrif á efnahagslífið hérna. Þetta er náttúrulega reiðarslag.“

Þetta segir Indriði Indriðason, sveitastjóri Tálknafjarðar í samtali við mbl.is en fyrr í dag var sagt frá því að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækið Þórs­berg ehf. hafi tekið ákvörðun um að fresta því að hefja starf­semi eft­ir sum­ar­leyfi meðan kannaðir verða mögu­leik­ar á áfram­hald­andi rekstri og end­ur­skipu­lagn­ingu á starf­sem­inni. Í kjölfarið hefur öllum starfsmönnum fyrirtækisins verið sagt upp störfum en um er að ræða 26 störf.

„Auðvitað eru það mjög mörg störf,“ segir Indriði. „En þrátt fyrir að aldrei sé hægt að segja að svona komi á góðum tíma þarf að líta til þess að það er búin að vera mikil uppbygging á Tálknafirði og í Vesturbyggð síðustu ár, í kringum fiskeldi og fleira. Það hefur verið vöntun á fólki hérna í vinnu,“ segir Indriði og bætir við að hann ætli ekki að mála aðstæður eins svartar og hægt er.

„Þetta hefði getað komið á miklu verri tíma en engu síður er þetta grafalvarlegt. Við þurfum örugglega að aðstoða fólk hérna sem verður fyrir þessu.“

Gríðarleg fjárfesting að eiga sér stað

Indriði segist hafa heyrt í nokkrum bæjarbúum og starfsfólki Þórsbergs í dag. „Fólk hefur auðvitað miklar áhyggjur af þessu. En ég hef einnig heyrt í öðrum atvinnurekendum sem hafa bent mér á að það eru laus störf hjá þeim,“ segir hann og bætir við að þau séu aðallega í fiskeldi og í kalkverksmiðjunni á Bíldudal. Í botni fjarðarins rís nú ein stærsta eldisstöð landsins og að sögn Indriða er gríðarleg fjarfesting að eiga sér stað á svæðinu.

Hann leggur þó áherslu á að fjöldauppsagnir sem þessar séu alltaf alvarlegt mál, sérstaklega í litlum bæjarfélögum. „Þetta er alltaf skelfilegt á litlum stöðum eins og þessum. Áhrifin gætu orðið gríðarleg enda er þetta mjög fjölmennur vinnustaður miðað við stærðina á sveitarfélaginu en við verðum að horfa björtum augum fram á veginn.“

Indriði mun á morgun hitta stjórnendur Þórsbergs og fara yfir málið. „Við vorum nú búin að heyra aðeins af þessu og vorum undir þetta búin. En nú þarf að  fara yfir hvað þetta þýðir nákvæmlega, hvaða  áhrif þetta mun hafa á rekstur sveitasjóðs og hvað við getum gert til að aðstoða þá einstaklinga sem verða fyrir þessu.“

Fyrri frétt mbl.is:

Öllum starfsmönnum sagt upp

Indriði Indriðason sveitastjóri Tálknafjarðar.
Indriði Indriðason sveitastjóri Tálknafjarðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert