Fengu ekki ráðrúm til að upplýsa starfsfólk

mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn harmar þau vinnubrögð Isavia að opinbera strax ákvörðun sína að hefja viðræður við Arion banka um rekstur fjármálaþjónustu í Leifsstöð, en bankinn bað um að niðurstaðan yrði ekki gerð opinber fyrr en ráðrúm gæfist til að gera starfsfólki grein fyrir málinu.

Þetta kemur fram í frétt á vef Landsbankans.

Þar segir að útlit sé fyrir að Landsbankinn hætti fjármálaþjónustu í flugstöðinni eigi síðar en í lok apríl 2016, en sex mánaða uppsagnarfrestur er á samningi bankans og Isavia.

Alls starfa 25 starfsmenn í útibúi Landsbankans í Leifsstöð.

„Landsbankinn hefur rekið útibú í Leifsstöð allt frá opnun flugstöðvarinnar og hafði fullan hug á að halda þeim rekstri áfram. Bankinn lagði mikla vinnu í tilboðsgerðina og telur að tilboð bankans hafi verið afar hagstætt,“ segir í fréttinni.

Frétt mbl.is: Hefja viðræður við Arion banka

Uppfært kl. 18.28:

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að þar á bæ þyki mönnum afar miður hvernig fór í dag. Hann segir að Landsbankanum hafi verið tilkynnt niðurstaðan í hádeginu og að ákveðið hafi verið að senda út tilkynningu tveimur tímum síðar, sem fór út um kl. 13.55.

Klukkan 14 hafi honum borist símtal frá öðrum starfsmanni Isavia um beiðni bankans, en þá hafi verið orðið of seint að afturkalla tilkynninguna. Hann segir að Isavia hefði að sjálfsögðu orðið við beiðninni ef hún hefði borist í tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert