Hálka og hálkublettir víða

Það er eins gott að vara sig í hálkunni.
Það er eins gott að vara sig í hálkunni. mbl.is/Golli

Lokað er um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Þá eru hálkublettir á Reykjanesbraut en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Á vegum á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir og sumstaðar snjóþekja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir einnig að þungfært sé á Holtavörðuheiði en annars snjóþekja, hálka eða hálkublettir á Vesturlandi.

Þá er þæfingur á Þverárfjalli en snjóþekja og éljagangur á Vatnsskarði. Annars snjóþekja og hálka á Norvesturlandi. Þungfært er í Öxnadal og þæfingur á Öxnadalsheiði. Þæfingur á Tjörnesi en ófært á Hófaskarði og Hálsum. Annars snjóþekja, hálka og éljagangur á Norðausturlandi.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur mjög víða en þæfingur og skafrenningur á Fjarðarheiði. Hálka og hálkublettir á Suðausturlandi.

Umferðartafir í Strákagöngum

Vegna vinnu við endurbætur á rafkerfi í Strákagöngum má búast við umferðartöfum
þar á virkum dögum frá klukkan 8:00-18:00 í nóvember og til 22. desember.

Vinna á Reykjanesbraut

Opnað hefur verið fyrir umferð um nýtt hringtorg á Reykjanesbraut við Fitjar. Vegna frágangsvinnu er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á vinnusvæðinu.

Vinna við undirgöng í Mosfellsbæ

Vegna framkvæmda við undirgöng undir Vesturlandsveg á móts við Aðaltún í Mosfellsbæ, er hraði þar tekinn niður í 50 km/klst.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert