Vélinni flogið til Amsterdam í morgun

Boing 767 þota Icelandair
Boing 767 þota Icelandair mbl.is/Árni Sæberg

Farþegaþotu Icelandair, sem snúa þurfti við í gærkvöldi vegna bilunar í hjólabúnaði, var flogið til Amsterdam í Hollandi í morgun. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, var strax gert við vélina í gær. „Það kom í ljós að það var frekar einfalt að gera við þessa bilun og því fór hún strax aftur í flug í morgun,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

Vélin lagði af stað frá Keflavík um klukkan átta í morgun og var á áætlun. Hún fór síðan í loftið í Amsterdam á leið aftur til Keflavíkur skömmu fyrir 12:30 að íslenskum tíma eða klukkan 14:30 að hollenskum tíma.

Í gær var sagt frá því að bilun hefði komið fram í vélinni þar sem hjólabúnaðurinn vinstra megin festist ekki eftir flugtak í Keflavík. Því var tekin ákvörðun um að snúa vélinni við. Sama vél lenti í sams konar vandræðum í Boston í síðustu viku. Þurfti að halda vélinni á flugvellinum í Boston í fjóra daga á meðan reynt var að komast að því hvað væri að henni.

Fyrri frétt mbl.is: Sams konar vandamál kom aftur upp

Fyrri frétt mbl.is: Vélin komin heim frá Boston

Á föstudaginn sagði Guðjón í samtali við mbl.is að bilunin hafi í sjálfu sér ekki verið stórvægileg heldur tók tíma að komast að því hvað var að.

Aðspurður nú hvort atburðir síðustu daga hafi áhrif á öryggi vélarinnar segir Guðjón svo ekki vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert