Sölubann lagt við vinsælum illgresiseyði

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Hér á Íslandi erum við að innleiða efnalöggjöf Evrópu í gegnum EES-samninginn. Hér er um að ræða vöru sem búið er að banna innan ESB. Við innleiddum reglugerðina í desember síðastliðnum og tók hún gildi 1. janúar,“ segir Björn Gunnlaugsson, teymisstjóri efnateymis Umhverfisstofnunar, en margir hafa furðað sig á því að undanförnu hví ekki sé hægt að nálgast illgresiseyðinn Casoron G í verslunum á Íslandi. 

Björn segir efnið hafa verið afar vinsælt hjá garðeigendum á undanförnum árum. „Þetta var mjög vinsælt efni. Það voru flutt inn 11 tonn af þessari vöru í fyrra. Við höfum dæmi þess að flutt hafa verið inn 20 tonn á ári. Þetta þýðir kannski að einhver breyting verði á hjá garðeigendum að hafa ekki aðgang að þessari vöru. En þótt sölubannið hafi tekið gildi þann 1. janúar, þá tekur notkunarbannið ekki gildi fyrr en 31. desember á þessu ári. Það er í samræmi við evrópskar reglur að gefinn er tími til að nota vöru sem þegar er komin á markað“ segir Björn. 

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar er fólki bent á að hreinsa illgresið frekar með höndunum eða með þar til gerðum verkfærum. Ella að leita ráðgjafar hjá söluaðilum um hvað hægt sé að nota í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert