Telur sér heimilt að bregðast við

Útlendingastofnun telur sér heimilt og, í ljósi ákvæða upplýsingalaga, að nokkru marki skylt að bregðast við fyrirspurnum varðandi mál sem eru til umfjöllunar í fjölmiðlum. 

Þá telur stofnunin sér heimilt að leiðrétta rangfærslur sem hafðar eru í frammi. Þegar upplýsingar úr málaskrám eru veittar vegna fjölmiðlaumfjöllunar hefur stofnunin þó leitast við að gæta meðalhófs og því ekki sagt frá viðkvæmum persónuupplýsingum eða sent frá sér persónugreinanlegar upplýsingar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun vegna fregna í fjölmiðlum um að stofnunin hafi brotið trúnað gagnvart skjólstæðingum sínum, Ali Nasir og Majed, hælisleitendum frá Írak sem dvalið hafa á Íslandi í um sjö mánuði.

Fram kom í frétt Stundarinnar í gær að þeir lögfræðingar sem fjölmiðillinn ræddi við hafi furðað sig á að Útlendingastofnun gefi fjölmiðlum upp upplýsingar um vegabréf hælisleitenda, það hvað komið hefur fram í viðtölum við þá og málsgögn úr hælismálum. 

Í tilkynningunni frá Útlendingastofnun segir að þrátt fyrir að vegna fyrri fjölmiðlaumfjöllunar kunni að vera hægt að rekja almennar upplýsingar, sem annars væru ekki persónugreinanlegar, til tiltekinna mála eða málsaðila, þá hafi stofnunin talið sér heimilt að veita almennar upplýsingar við slíkar aðstæður.

„Þessi skilningur fékkst staðfestur með úrskurði Persónuverndar dags. 22. júní sl. Í honum segir meðal annars:

„Í ljósi þeirra lagaákvæða, sem fyrr eru rakin, verður að játa stjórnvöldum nokkurt svigrúm til þess að nota málaskrár sínar til að bregðast við spurningum sem fjölmiðlar beina að þeim, þ.á.m. til að veita svör sem, eftir atvikum, kann að vera hægt að rekja til tiltekinna einstaklinga, s.s. í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar.“

Þannig hefur stofnunin greint frá ferli mála, stöðu þeirra og niðurstöðu en ekki nánari atvikum mála, persónulegum högum fólks eða málsástæðum þess. Þá hefur almennt ekki verið talin ástæða til að greina frá nöfnum fólks, þjóðerni þess, trú eða kynþætti,“ segir Útlendingastofnun.

Þá tekur hún fram að í fréttatilkynningu sinni í gær hafi ekki verið upplýst um aldur mannanna sem höfðu verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Aðeins hafi verið leiðrétt sú fullyrðing að annar þeirra væri barn að aldri og vísað með almennum hætti til gagna málsins og framburðar mannanna. Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um málið og efni hennar hafi það ekki verið talið brjóta gegn reglum um persónuvernd, þagnarskyldu og meðalhófi að koma þessu á framfæri með þeim hætti sem gert var.

Frétt mbl.is: Hælisleitandinn ekki undir lögaldri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert