Tíu ára undir stýri

mbl.is/Þórður

Á sjötta tímanum í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af ökumanni og farþegum bifreiðar við Tjarnarvelli í Hafnarfirði þar sem bifreiðinni var ekið í hringi á bifreiðastæði. Ökumaðurinn reyndist aðeins vera 10 ára og var faðir hans í farþegasæti en ekki í öryggisbelti. Þá voru börn í aftursæti bifreiðarinnar, fædd 2004 og 2010 en í öryggisbeltum. Samkvæmt upplýsingum í dagbók lögreglu var vettvangsskýrsla rituð um málið og það tilkynnt til barnaverndar.

Annar ungur ökumaður var stöðvaður skömmu fyrir klukkan tvö í nótt, þá við Bústaðaveg. Sá var aðeins fimmtán ára og fjórir ólögráða farþegar voru einnig í bifreiðinni. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynningu til barnaverndar.   

Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum. Sá fyrsti var á ferðinni á Gullinbrú klukkan 20:55 þegar hann var stöðvaður. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

Klukkan hálfeitt í nótt var bifreið stöðvuð á Laugavegi við Snorrabraut eftir akstur gegn rauðu ljósi.  Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og var einnig réttindalaus, þ.e. sviptur ökuréttindum. Um klukkustund síðar, eða klukkan 1:33, var bifreið stöðvuð við umferðareftirlit á Bústaðavegi en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert