2.633 einkahlutafélög skráð á tólf mánuðum

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim …
Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 279 í 413, eða um 48% á síðustu 12 mánuðum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nýskráningar einkahlutafélaga í júní 2016 voru 275. Síðustu 12 mánuði, frá júlí 2015 til júní 2016, hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 18% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Alls voru 2.633 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.232 á fyrri 12 mánuðum. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 279 í 413, eða um 48% á síðustu 12 mánuðum.

Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem nýskráningum fjölgaði úr 168 í 231 (38%) og flutninga og geymslu þar sem fjölgunin var úr 42 í 57 nýskráningar (36%). Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi, eða um 6% frá fyrra tímabili (úr 233 í 220).

Gjaldþrotum fjölgaði í heild- og smásöluverslun

Skráð gjaldþrot í júní 2016 voru 102. Gjaldþrotum fyrirtækja síðustu 12 mánuði, frá júlí 2015 til júní 2016, hefur fjölgað um 12% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 840 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 751 á fyrra tímabili. Á síðasta 12 mánaða tímabili hefur gjaldþrotum fjölgað hlutfallslega mest í heild- og smásöluverslun ogviðgerðum á vélknúnum ökutækjum, þar sem þeim fjölgaði úr 124 í 174 frá fyrra tímabili (40%), en einnig má nefna fjölgun gjaldþrota í upplýsingum og fjarskiptum úr 38 í 50 (32%). Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í fasteignaviðskiptum, úr 91 í 78 (14%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert