Gleði í Eyjum í frábæru veðri

Yngsta kyn­slóðin skemmt­ir sér vel á hátíðinni.
Yngsta kyn­slóðin skemmt­ir sér vel á hátíðinni. Mynd/​Eyja­f­rétt­ir

Mikill fjöldi fólks er nú kominn til Vestmannaeyja til að taka þátt í Þjóðhátíð. Enn bætist þó stöðugt við, en gera má ráð fyrir að um 15 þúsund manns leggi leið sína til Eyja um helgina.

„Þetta hefur allt saman gengið mjög vel og farið vel fram,“ segir Hörður Orri Grettisson, talsmaður Þjóðhátíðar. Hann segir gott veður í bænum hafa sett punktinn yfir i-ið þetta árið, og mörgum líði hreinlega eins og þeir séu staddir í útlöndum.

„Þegar maður vaknaði í morgun var 20 stiga hiti og heiðskírt eins og í gær svo við erum mjög ánægð,“ segir hann. „Þegar maður keyrir um bæinn núna er fullt af fólki að labba um á stuttbuxum og stuttermabolum og svo er mikið af fólki í sundi.“

Barnadagskráin í dag byrjar á slaginu þrjú, en dagskráin í dalnum byrjar klukkan níu í kvöld. Að sögn Harðar verður hápunkturinn þó líklega þegar flugeldasýningin verður í kvöld, og einnig þegar Quarashi stígur á svið. 

Þá segir Hörður að táknrænn viðburður sem efnt var til um tíuleytið í gær hafi heppnast gríðarlega vel. Þá komu tónlistarmenn, gestir hátíðarinnar og gæsla saman gegn kynferðisofbeldi. „Friðrik Dór sagði nokkur orð og svo var tekið víkingaklapp. Þetta var virkilega skemmtilegt þótt um alvarlegt málefni sé að ræða,“ segir Hörður.

Herjólf­ur fer alls átta ferðir úr Land­eyja­höfn til Vest­manna­eyja í dag en sami fjöldi ferða var far­inn í gær. Þá fara fimm flug­vél­ar frá Flug­fé­lag­inu Erni til Eyja í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert