Fjórir handtóku mann í Kórahverfi

Frá handtökunni í Kórahverfinu í dag.
Frá handtökunni í Kórahverfinu í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni að bifreiðinni sem stolið var í Kópavogi fyrr í dag. Barn var í bifreiðinni og fannst það óhult skömmu síðar. Sjónarvottur fylgdist með því þegar maður var handtekinn skammt frá versluninni Krónunni í Kórahverfinu. Líklegt er að um sama mann sé að ræða og stal bifreiðinni.

„Þyrlan er að sveima á milli blokkanna í mjög lítilli hæð. Hún var lengi á vappi, kannski í 5 til 10 mínútur. Við kíkjum út til að sjá hvað er að gerast,“ sagði sjónarvottur og bætti við að tveir til þrír lögreglubílar hafi þá ekið á bílastæðið hjá Krónunni, ásamt nokkrum mótorhjólum.

Lögreglan handtekur mann í Kórahverfinu.
Lögreglan handtekur mann í Kórahverfinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einhverjir lögreglubílar fóru þá  aftur á veginn sem er fyrir neðan Hörðukór. „Annar bíllinn á bílastæðinu hjá Krónunni stoppar vegfaranda sem er á grasinu, kippir í hann, nær taki á honum og setur upp við bílinn.“

Að sögn sjónarvottsins kom annar lögreglubíll þá aðvífandi og brunaði yfir grasið í átt að hinum lögreglubílnum. Samtals handtóku fjórir lögregluþjónar manninn. Skömmu síðar hvarf þyrlan á brott.

Landhelgisgæslan hefur staðfest að þyrla á hennar vegum hafi tekið þátt í leitinni að bifreiðinni. Þyrlan kom auga á bifreiðina en þá hafði lögreglan einnig frétt af henni eftir öðrum leiðum.

Frétt mbl.is: „Ánægð með að barnið skyldi finnast“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert