„Delluumræða“ um afnám refsingar

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir tillögu starfshóps um að afnema fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neysluskömmtum af vímuefnum, vera skrítna.

Ástæðan sé sú að fangelsisrefsing hafi hingað til ekki verið við lýði í slíkum málum heldur hafi sektum verið beitt.

„Í mínum huga er þetta delluumræða. Fólk hefur ekkert verið fangelsað út af því einu að það sé með einhverja neysluskammta af fíkniefnum á sér,“ segir Helgi Magnús, aðspurður.

Frétt mbl.is: Hætt verði að fangelsa fyrir neysluskammta

AFP

Fyrirmæli ríkissaksóknara um sektarheimildir

Hann bendir á fyrirmæli frá ríkissaksóknara til ákærenda frá árinu 2009 um brot sem ljúka má með lögreglusátt. Þar er greint frá sektarheimildum vegna kannabisefna, amfetamíns, LSD, MDMA og skyldra efna og kókaíns. Þar kemur fram að fyrir vörslur á efnunum skuli sekta eins og fyrir kaup.

Spurður hvort það myndi hafa miklar breytingar í för með sér að afnema fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neysluskömmtum, segir Helgi: „Ekki ef þetta er bara spurning um neysluskammta og við erum þá að tala um einhver grömm fyrir þann sem ber þá en eru ekki ætlaðir til sölu. Sem einstök brot sé ég ekki að það sé neinn munur þarna á.“

mbl.is/Eggert

Tengjast oft öðrum brotum 

Helgi Magnús tekur fram að fíkniefnabrot tengist oft öðrum brotum og þess vegna þurfi að halda áfram að beita fangelsisrefsingum fyrir alvarlegri brot.  „Menn þurfa að vera með á hreinu um hvað umræðan á að snúast. Ég held að enginn vilji afnema refsingar vegna stærsta hluta þessara brota sem tengjast fíkniefnum,“ segir hann.

„Mér hefur stundum fundist þessi umræða drifin áfram af einhverri stemningu frekar en að það hafi verið farið djúpt ofan í einstaka tilvik. Maður hefur heyrt upphrópanir um að menn séu að fara í fangelsi vegna þess að þeir hafi verið með nokkur grömm til eigin neyslu. Það er ekki þannig. Það er þá vegna þess að þeir eru komnir með eitthvert sölumagn,“ greinir Helgi frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert