Hlutu „Óskarsverðlaun í hjólabransanum“

Starfsmenn Lauf á Eurobike sýningunni.
Starfsmenn Lauf á Eurobike sýningunni. Mynd/Lauf forks

Íslenska hugvitsfyrirtækið Lauf Forks vann í dag til verðlauna í flokki bestu hjólaíhluta á Eurobike-hjólasýningunni í Þýskalandi, en hún og Interbike í Bandaríkjunum eru stærstu hjólasýningar í heimi. Benedikt Skúlason, annar stofnenda fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að verðlaunin hafi ótrúlega mikla þýðingu fyrir Lauf og að þau séu mikill gæðastimpill.

Frétt mbl.is: Íslenskt hugvit komið í meistaraflokk

Gaffall­inn sem Lauf Forks er að setja á markað núna kallast Grit-gaffall og er byggður á sömu hug­mynd og fyrri gaffall fyr­ir­tæk­is­ins sem var hannaður fyr­ir fjalla­hjól. Er nýi gaffallinn bæði fyrir „cyclocross-hjól“ og „gravel-hjól“ en þau eru millistig á milli götuhjóla og fjallahjóla. Grit-gaffallinn er ekki með hefðbundnum dempurum, heldur er hann byggður upp sem fjaðurdempari. 

Grit-gaffallinn er ekki með hefðbundnum dempurum, heldur er hann byggður …
Grit-gaffallinn er ekki með hefðbundnum dempurum, heldur er hann byggður upp sem fjaðurdempari. Mynd/Lauf forks

 

Benedikt, sem er staddur á Eurobike, segir við mbl.is að um sé að ræða eins konar Óskarsverðlaun í hjólabransanum. „Maður lét sig dreyma um að vinna þetta þegar við vorum að byrja, en það var bara draumur,“ segir hann og bætir við að nú sé hann að rætast.

Verðlaunin eru að sögn Benedikts ekki bara skemmtilegur heiður fyrir fyrirtækið, heldur notar hjólafyrirtæki verðlaunin í auglýsingar og sýna þau kúnnum fram á að um góð kaup er að ræða, í raun er þetta einn af helstu gæðastimplum hjólabransans. „Að fá svona viðurkenningu frá bransanum segir manni að þetta virki og þetta hefur ótrúlega mikla þýðingu,“ segir Benedikt glaður.

Forsvarsmenn Lauf stilltu sér stoltir upp á bás fyrirtækisins á …
Forsvarsmenn Lauf stilltu sér stoltir upp á bás fyrirtækisins á sýningunni eftir að hafa unnið til verðlaunanna í dag. Mynd/Lauf forks
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert