„Stoltar, sameinaðar, óstöðvandi“

Frá samstöðufundinum á Austurvelli.
Frá samstöðufundinum á Austurvelli. mbl.is/Golli

„Við erum ennþá að taka sama slaginn en við gerum það stoltar, sameinaðar, óstöðvandi,“ sagði menntskælingurinn Una Torfadóttir í örræðu sinni á samstöðufundi kvenna á Austurvelli nú síðdegis. Hún sagði það ekki val að vera kona en það væri val að vera femínisti.

Una vakti mikla athygli þegar hún samdi ljóð fyrir vinningslið Hagaskóla í atriðinu „Elsku stelpur“ í hæfileikakeppninni Skrekk síðasta vetur. Hún var ein fjögurra ræðukvenna sem fluttu svonefndar örræður á samstöðufundi í tilefni kvennafrídagsins á Austurvelli.

„Þeir segja að konur sæki sjálfar um verr launuð störf. Þeir segja „konur vilja vera meira heima“. Þau segja „konur ráða þessu sjálfar“. Þau segja „konur eru frjálsar“ en það velur engin kona að vera kúguð. Það velur engin kona að fá lægri laun en karl. Ef jafnrétti væri einfalt val þá stæðum við ekki hér,“ sagði Una við mikil fagnaðaróp viðstaddra.

Bein umfjöllun mbl.is frá því í dag

Sagði hún konur ekki hafa valið sér aðstæður sínar en þær hefðu valið að berjast, standa saman og gefast aldrei upp.

„Við verðum að halda áfram að nýta það val sem við höfum. Látum í okkur heyra því við getum það ekki allar. Ráðum fleiri konur því það gera það ekki allir. Verum stoltar af baráttunni því það er nógu margir að reyna að rakka hana niður. Það er ekki val að vera kona en það er val að vera femínisti,“ sagði Una.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert