Tjónvaldur í vímu undir stýri

mbl.is/júlíus

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst ábending um tíuleytið í gærkvöldi um ökumann sem væri í annarlegu ástandi undir stýri bifreiðar. Stuttu síðar fannst ökumaðurinn en þá hafði hann orðið valdur að umferðaróhappi og eignaskemmdum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis og var vistaður í fangaklefa að lokinni sýnatöku í gærkvöldi. 

Um eitt í nótt var ökumaður stöðvaður í Seljahverfi grunaður um ölvun við akstur. Þegar lögregla lét hann blása í áfengismæli á staðnum mældist hann langt yfir viðmiðunarmörkum og var færður á lögreglustöðina Kópavogi þar sem tekið var úr honum blóðsýni.

Að sögn lögreglu var hann látinn laus að sýnatöku lokinni en lögreglan lagði hald á bíllykla mannsins tímabundið og fær hann þá væntanlega afhenta að nýju þegar af honum rennur áfengisvíman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert