Allt reynt fyrir litla drenginn

Drengurinn býr nú á Íslandi en hann verður fluttur til …
Drengurinn býr nú á Íslandi en hann verður fluttur til Noregs í síðasta lagi 4. desember ef ekki næst sátt milli íslenskra og norskra barnaverndaryfirvalda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við reynum að nota allar mögulegar leiðir í þessu,“ segir Oddgeir Einarsson, lögmaður móður  íslenska drengsins sem norsk barnaverndaryfirvöld hafa forræði yfir og vilja fá til sín í síðasta lagi 4. desember. Litli drengurinn býr nú á Íslandi hjá móðurömmu sinni. Hann er fimm ára.

Frétt mbl.is: Pattstaða í máli litla drengsins

Með dómi Hæstaréttar Íslands í síðustu viku var fallist á þær kröfur norskra yfirvalda að drengurinn yrði afhentur þeim. Móðir hans missti forræðið fyrr á þessu ári og var það niðurstaða fylkisnefndar í Noregi, þar sem mæðginin höfðu búið frá árinu 2013, að heimili móðurömmu og afa hans væri heldur ekki öruggur uppeldisstaður. Amma hans fór í kjölfarið með hann til Íslands. Móðirin hefur sjálf viðurkennt að hún sé ófær um að annast drenginn eins og sakir standa. Ekki er deilt um það nú, heldur hvað sé drengnum fyrir bestu: Fóstur á Íslandi eða í Noregi.

Fyrir nokkru hófust viðræður milli norskra og íslenskra barnaverndaryfirvalda um þetta atriði. Er það vilji þeirra íslensku að honum verði komið í fóstur hér á landi og er það í takt við kröfur fjölskyldu hans.

Oddgeir segir þessar viðræður enn í gangi. Hann segir að norsku barnaverndaryfirvöldin hafi verið að skoða sínar lagaheimildir og leita álits innan sinnar stjórnsýslu um hvað sé mögulegt að gera í stöðunni.

En fleiri leiðir eru einnig reyndar að sögn Oddgeirs. 

„Ég hef verið í sambandi við lögmann úti í Noregi og óskað eftir því að hann hlutist til um að reyna að koma á samkomulagi líka. Við reynum að nota allar mögulegar leiðir í þessu,“ segir hann.

Nægur tími til að semja

Oddgeir segir að enn sem komið er sé þó engin formleg niðurstaða komin í málið. Spurður hvort hann telji líklegt að samið verði fyrir 4. desember, er afhenta ber drenginn samkvæmt dómi, svarar Oddgeir: „Ég get ekki spáð fyrir um líkur á því. En ef það er vilji til þess beggja megin þá held ég að þessi tími sé ekkert atriði í því, það ætti alveg að vera hægt að klára þetta.“

Hann segir að jafnvel þó að aðeins örfáir dagar væru til stefnu ætti að vera hægt að ná samkomulagi um fóstur drengsins á Íslandi. Ef vilji væri til þess af hálfu norskra yfirvalda yrði hann ekki sóttur hingað til lands og fluttur út,  „á meðan verið væri að ganga frá einhverjum pappírum.“ 

Í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur um afhendingu drengsins, er haft eftir ömmunni að hún muni ekki afhenta hann af fúsum og frjálsum vilja. Oddgeir segist ekki vita hvort að sú afstaða hennar hafi breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert