Kuldalegt með útsynningi og éljum

Veðurstofa Íslands

Dagurinn byrjar kuldalega með allhvössum útsynningi og éljagangi, en lægir síðan smám saman og rofar til. Í kvöld kemur allkröpp lægð sunnan úr hafi og gengur þá í norðanátt með slyddu eða snjókomu sunnan- og austanlands, jafnvel rigningu allra syðst. Hiti verður þó yfirleitt ekki fjarri frostmarkinu.

Á morgun er hann síðan aftur lagstur í vestanátt með éljum, en birtir til fyrir austan og kólnar í veðri. Þennan sama dag fyrir 30 árum varð víða tjón á vestanverðu landinu vegna hvassviðris og slösuðust nokkrir lítillega, en einn alvarlega þegar fiskikar fauk á hann. Átta kindur drápust þegar þak sviptist af fjárhúsum í Kjósinni, segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Útlit er fyrir áframhaldandi sviptingar í veðri næstu dag, hvassa vinda og úrkomusamt.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan 13-20 m/s og él, hvassast úti við N-ströndina, en léttskýjað á austanverðu landinu. Lægir og rofar víða til í dag, en gengur í norðaustan 8-15 S- og A-lands í kvöld með snjókomu eða slyddu, en rigningu syðst. Hægari norðanátt og él NV-til. Hiti yfirleitt kringum frostmark.
Suðvestan 13-20 og éljagangur á morgun, hvassast nyrst, en bjartviðri A-til. Frostlaust með S-ströndinni, en frost annars 1 til 6 stig.

Á miðvikudag:
Suðvestan 8-15 m/s, en 15-20 NV-til og víða él, en léttir til fyrir austan. Lægir og styttir upp V-til um kvöldið. Frost 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag:
Austlæg átt, 8-15 m/s og snjókoma eða slydda S-til, en rigning við ströndina og hiti 0 til 5 stig. Mun hægari vindur, úrkomulítið og talsvert frost fyrir norðan.

Á föstudag og laugardag:
Ákveðin sunnanátt og rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið NA-til. Fremur milt veður.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðanátt með dálítilli snjókomu N-lands, en léttir til fyrir sunnan og kólnar í veðri.

Á mánudag:
Búast má við vaxandi austanátt með snjókomu eða slyddu, einkum S-til og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert