Innritun barna frestað um viku

Börn að leik á frístundaheimili.
Börn að leik á frístundaheimili. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fresta innritun barna í grunnskóla og á frístundaheimili um eina viku vegna tæknilegra örðugleika.

„Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem tæknibilun á Rafrænni Reykjavík hefur valdið foreldrum/forráðamönnum við innritun í dag,“ segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Skráningin átti að hefjast í morgun en vefurinn Rafræn Reykjavík hrundi og gátu foreldrar því ekki skráð börnin sín þar inn.

Í tilkynningunni á vef Reykjavíkurborgar er foreldrum bent á að engar skráningar hafi farið í gegnum rafræna kerfið í dag. Því þurfi að innrita öll börn að nýju í grunnskóla og inn á frístundaheimili þegar rafræna innskráningarkerfið verður komið í lag.

Foreldrar fá sendar nánari upplýsingar um tilhögun innritunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert