10% tilkynnt til barnaverndar

Þessar tölur eru háar í alþjóðlegum samanburði en alls bárust …
Þessar tölur eru háar í alþjóðlegum samanburði en alls bárust barnaverndarnefndum yfir 9.300 tilkynningar í fyrra.

9.310 tilkynningar bárust í fyrra til þeirra 27 barnaverndarnefnda sem starfandi eru á landinu. Þetta er fjölgun um 9,1% frá árinu á undan og aðeins einu sinni áður hafa nefndunum borist fleiri tilkynningar, það var 2009; árið eftir hrun. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á árinu 2016 var 7.626, tæp 10% íslenskra barna. Tilkynningum fjölgaði um 17% á landsbyggðinni og 5,9% á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Barnaverndarstofu. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að þessar tölur séu háar í alþjóðlegum samanburði, en hafa beri í huga að skilgreiningar á tilkynningum sem þessum séu mismunandi eftir löndum, t.d. séu afbrot unglinga inni í íslensku tölunum en þau séu skráð í réttarvörslukerfum í mörgum öðrum löndum. „En þetta er hærra en gerist og gengur og ég er þeirrar skoðunar að ein skýringin sé að íslenskt samfélag sé meðvitaðra um réttindi barna en mörg önnur,“ segir Bragi. „Þetta gæti einnig verið merki um versnandi aðstæður barna og það er eitthvað sem við munum greina á næstunni.“

Kynjamunur á tilkynningum

Hann segir að ekki liggi fyrir hversu margar tilkynninganna í fyrra urðu að barnaverndarmálum, en tilkynning verður að máli þegar ákveðið er að hefja könnun. „Þá skoða starfsmenn efni tilkynningarinnar; afla gagna og hafa samband við foreldra, skóla og aðra sem tengjast barninu og gætu varpað ljósi á vandann,“ segir Bragi.

Árið 2015 urðu 68% þeirra tilkynninga sem bárust það árið að barnaverndarmálum og verði hlutfallið áþekkt fyrir 2016 má búast við að barnaverndarmálin verði rúmlega 6.300. „Þau gætu jafnvel orðið enn fleiri,“ segir Bragi. „Hlutfall tilkynninga sem verða að barnaverndarmálum hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár.“

Nokkur kynjamunur kemur fram þegar tölurnar eru skoðaðar. Drengir eru oftar tilkynntir fyrir áhættuhegðun en stúlkur og það sama á við um afbrot og að beita ofbeldi. Þeir eru líka oftar tilkynntir fyrir að mæta illa í skólann. Stúlkur eru í meirihluta þeirra sem koma í Barnahús þar sem m.a. eru teknar skýrslur vegna kynferðislegs ofbeldis og annars ofbeldis sem börn eru beitt.

Flestar tilkynningarnar komu frá lögreglu, næstalgengast var að þær kæmu frá skólum eða sérfræðiþjónustu og þá var einnig talsvert um að læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn sendu inn tilkynningar.

Vanræksla og ofbeldi

Vanræksla var algengasta ástæða tilkynninga, en 3.674 tilkynningar bárust vegna þess. Algengast var að vanrækslan sneri að umsjón og eftirliti með börnunum og yfir eitt þúsund tilkynningar bárust vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu foreldra.

Tilkynningum um áhættuhegðun fækkaði á milli ára, en tilkynningum um að börn væru beitt ofbeldi fjölgaði. Spurður hver geti verið skýringin á þessari aukningu segir Bragi að fjöldi tilkynninga segi ekki alla söguna. Til dæmis hafi tilkynningum til barnaverndarnefnda um heimilisofbeldi, þar sem börn eru á heimilinu, fjölgað úr 497 árið 2014 í 807 í fyrra eða um 62%. „Þetta þarf ekki að þýða að tilvikum um heimilisofbeldi hafi fjölgað svona mikið, heldur má að miklu leyti skýra þessa aukningu með breyttu verklagi lögreglu í heimilisofbeldismálum,“ segir Bragi. Beiðnum um fósturheimili fjölgaði á árinu 2016 og voru 149, þar af voru 32 beiðnir um varanlegt fóstur. Bragi segir að svokölluðum þvingunarráðstöfunum, þegar börn eru vistað utan heimilis í andstöðu við vilja foreldra, hafi fjölgað undanfarin ár. Til dæmis hafi fjöldi forsjársviptinga þrefaldast undanfarin fimm ár. „Á þessu eru engar haldbærar skýringar,“ segir Bragi. „Þetta er eitt af því sem þarf að kanna nánar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert