Frostlaust að deginum

Við getum átt von á fleiri vorboðum næstu daga en …
Við getum átt von á fleiri vorboðum næstu daga en líkt og fram hefur komið á mbl.is er lóan komin til landsins og krókusar og páskaliljur í blóma í mörgum görðum. Kristinn Magnússon

Vorið er farið að minna á sig í veðurkorti dagsins því spáð er eins til sjö stiga hita um allt land í dag en víða næturfrosti. Spáð er austanátt og yfirleitt þurru í dag og næstu daga.

„Í dag og næstu daga verður austlæg átt, úrkomulítið lengst af og þokkalega milt, þótt víða verði vægt næturfrost. Daginn heldur áfram að lengja og áhrif sólarinnar aukast að sama skapi og allt verður vorlegra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Austan 8-15 sunnan til, hvassast allra syðst, en annars hægari vindur. Dálitlar skúrir með austur- og suðurströndinni í dag, en stöku él inn til landsins. Annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Úrkomuminna um tíma í nótt, en annars svipað veður. Hiti 1 til 7 stig að deginum, en víða næturfrost.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Austan 8-13 syðst á landinu og smáskúrir, en annars hægari austlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 2 til 7 stig að deginum, en um og yfir frostmarki norðan- og austanlands.

Á föstudag:
Austan 8-13 m/s við norðurströndina, en annars hægari austlæg átt. Stöku skúrir, en lengst af þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Hæg breytileg átt og víða dálítil úrkoma. Hiti 1 til 6 stig að deginum.

Á sunnudag:
Vaxandi suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir hlýja sunnanátt með rigningu, úrkomumest suðaustanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert