Lægð við landið austanvert

mbl.is/Styrmir Kári

Lægð sunnan úr hafi lagðist upp að suðausturströnd landsins í kvöld en henni fylgir norðaustanstormur og talsverð rigning og í sumum tilfellum slydda á suðaustanverðu landinu. Veður er þó mun hægara og alla jafna þurrt í öðrum landshlutum.

Lægðin verður á morgun komin austur fyrir land og snýst þá í norðanátt, allhvassa eða hvassa norðvestan til, en annars mun hægari samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Norðanáttin ber svalt loft yfir landið norðan- og austanvert með tilheyrandi éljum eða snjókomu á þeim slóðum. Áfram helst þó víða bjart fyrir sunnan og vestan.

Hiti getur farið upp fyrir 10 stig þegar best lætur syðra, en tæplega upp fyrir frostmark sums staðar fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert