Gylfi landaði fyrsta laxinum

Gylfi Sigurðsson og Einar Sigfússon, sölustjóri Norðurár, kampakátir með fyrsta …
Gylfi Sigurðsson og Einar Sigfússon, sölustjóri Norðurár, kampakátir með fyrsta laxinn. mbl.is/Einar Falur

Gylfi Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Swansea og íslenska landsliðinu, landaði nú í hádeginu fyrsta laxi sumarsins í Norðurá í Borgarfirði. Gylfi hóf veiðar klukkan 11 í morgun, eftir að ný álma veiðihússins Rjúpnaáss hafði verið vígð og hóf hann veiðar á Brotinu.

Laxar höfðu sést á Brotinu undanfarna daga og því þótti líklegt að hann tæki þar. Eftir nokkra stund tók mjög vænn lax sem Gylfi glímdi við langa hríð, áður en laxinn steypti sér niður ána og þurfti Gylfi þá að elta hann á næsta veiðistað, Almenning, með hóp fjölmiðlamanna á eftir sér. Eftir um 20 mínútna viðureign lak laxinn af rétt þegar átti að fara að landa honum. Gylfi fór þá aftur upp á Brotið og eftir nokkur köst tók annar vænn lax og eftir talsvert tog tókst Gylfa að landa honum. Var það 87 sm löng hrygna, sem var sleppt aftur út í strauminn eftir myndatöku.   

Hópur fjölmiðlamanna fylgdist með baráttu Gylfa við laxinn af bakkanum.
Hópur fjölmiðlamanna fylgdist með baráttu Gylfa við laxinn af bakkanum. mbl.is/Einar Falur

Fyrr um morguninn hafði séra Jón Ásgeir Sigurvinsson blessað nýja og glæsilega álmu við veiðihúsið Rjúpnaási, þar sem haldin var stutt athöfn. Í nýju byggingunni, sem er á tveimur hæðum, eru fjórtán herbergi sem öll snúa út að ánni og með útsýni yfir Laxfoss.

Guðrún Sigurjónsdóttir á Glitstöðum, formaður veiðifélagsins, segir um gríðarlega mikla breytingu að ræða hvað varðar aðstöðu fyrir veiðimenn við Norðurá og fagnaði hún opnun hússins um leið og hún afhenti Einari Sigfússyni sölustjóra Norðurár lykilinn að nýju byggingunni.

Gylfi hóf baráttu sína við fyrsta laxinn á Brotinu, en …
Gylfi hóf baráttu sína við fyrsta laxinn á Brotinu, en varð síðan að elta hann á næsta veiðistað, Almenning. mbl.is/Einar Falur
Séra Jón Ásgeir Sigurvinsson blessar nýja og glæsilega álmu við …
Séra Jón Ásgeir Sigurvinsson blessar nýja og glæsilega álmu við veiðihúsið Rjúpnaás. mbl.is/Einar Falur
Einar Sigfússon með mynd af Laxfossi frá 1944, sem starfsfólk …
Einar Sigfússon með mynd af Laxfossi frá 1944, sem starfsfólk og leiðsögumenn í ánni afhentu húsinu að gjöf. mbl.is/Einar Falur
Nýja álman er á tveimur hæðum og með 14 herbergjum …
Nýja álman er á tveimur hæðum og með 14 herbergjum sem öll hafa útsýni yfir ána og út að Laxfossi. mbl.is/Einar Falur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert