Dæmdur fyrir líkamsárás í Krónunni

Krónan á Granda.
Krónan á Granda. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi karl­mann á föstudag í fimm mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir lík­ams­árás í verslun Krónunnar á Granda í júní í fyrra. Að því er fram kemur í dómnum réðst maðurinn á brotaþola, sem hann segir hafa beitt unnustu sína kynferðisofbeldi.

Var hon­um enn frem­ur gert að greiða fórn­ar­lambi sínu 400 þúsund krón­ur í skaðabæt­ur með vöxt­um, 200 þúsund krón­ur í máls­kostnað og um 670 þúsund krón­ur í mál­svarn­ar­laun og ann­an sak­ar­kostnað.

Segist hafa blindast af reiði

Að því er fram kemur í dómnum veittist maðurinn að öðrum manni og kýldi hann með krepptum hnefa í andlitið þannig að hann féll á gólfið. Í framhaldinu hafi hann kýlt manninn ítrekað þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að hann hlaut mörg opin sár á höfði, tognun og ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg og nefbeinsbrot.

Kveðst maðurinn hafa verið með unnustu sinni við afgreiðslukassa inni í Krónunni þegar hann hafi séð brotaþola í versluninni. Unnusta hans hafi verið búin að kæra manninn fyrir nauðgun. Hann hafi sagt unnustu sinni að brotaþoli væri í versluninni, en hún hafi brugðist mjög illa við og hnigið niður. Eitthvað hafi brostið innra með honum og hann hafi því ráðist á manninn. Segist hann ekki hafa haft stjórn á sér og verið alveg brjálaður.

Þá segist hann hafa verið í miklu andlegu ójafnvægi við það að sjá brotaþola í versluninni þennan dag. Ætluð brot mannsins gagnvart unnustu hans hafi haft miklar afleiðingar í för með sér fyrir unnustu hans. Hann hafi blindast af reiði.

Myndbandsupptökur sýna árásina

Brotaþoli segist hafa verið við ávaxtadeild verslunarinnar þegar hann hafi skyndilega fengið högg í hnakka. Við það hafi hann fallið í gólfið. Því næst hafi hann fengið nokkur högg í andlitið á meðan hann hafi verið í gólfinu. Fólk í versluninni hafi stigið inn í atburðarásina. Segir hann unnustu ákærða hafa ranglega kært sig fyrir nauðgun.

Atvikið átti sér stað 19. júní í fyrra en brotaþoli lagði fram kæru þremur dögum síðar. Meðal gagna málsins eru myndbandsupptökur úr versluninni sem sýna stóran hluta atburðarásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert