„Það var haft rangt við“

Vaðlaheiðargöng hafa farið um 30% fram úr upphaflegri áætlun.
Vaðlaheiðargöng hafa farið um 30% fram úr upphaflegri áætlun. Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég hafði hvorki né hef nokkuð á móti þessum göngum. Þau eru í sjálfu sér eðlileg. En fyrir mér var verið að gera vitleysu,“ segir Mörður Árnason, sem var stjórnarþingmaður í samgöngunefnd Alþingis þegar þingið ákvað að heimila ríkisábyrgð á 8,7 milljarða króna kostnaði við gerð Vaðlaheiðarganga. Mörður studdi málið ekki á sínum tíma.

Í skýrslu sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi kom fram að verkefnið geti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd, en síðast í vor samþykkti Alþingi að verja allt að 4,7 milljörðum króna til að ljúka við gerð ganganna. Í aðdraganda verkefnisins var það kynnt sem einkaframkvæmd.

Í skýrslunni, sem unnin var af Friðriki Friðrikssyni, rekstrarráðgjafa hjá Advance, kemur fram að óvissa sé uppi um umferðarþróun og greiðsluvilja vegfarenda. „Ljóst er að gjald­skrá Vaðlaheiðarganga verður að vera tals­vert hærri en í Hval­f­irði til þess að end­ur­heimt­ur lána að fullu séu raun­hæf­ar, en gjald­skrá Hval­fjarðarganga hef­ur verið nán­ast óbreytt frá upp­hafi,“ seg­ir í niður­stöðu út­tekt­ar­inn­ar en fyrirséð er að framkvæmdin fari um 30 prósent fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun.

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.

Þrýstingur að norðan

Mörður segir að á sínum tíma hafi verið þrýst fast á málið að norðan. Segja megi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið „nauðugir viljugir“. Hann var á sínum tíma andvígur málinu enda taldi hann að verið væri að víkja frá því fyrirkomulagi, sem menn hefðu á löngum tíma komið sér saman um, að samgönguáætlun væri fylgt og að pólitísk samstaða um það væri á milli flokka og kjördæma. Hann segir miður að þær spár hafi ræst að kostnaðurinn myndi að uppistöðu til falla á ríkið. „Það hlakkar ekki í manni yfir þessu en við höfðum rétt fyrir okkur. Einkaframkvæmdarröksemdin stóðst ekki.“

Mörður, sem er í Frakklandi, tekur fram að hann hafi ekki séð skýrsluna. Hann nefnir líka að auðvitað hafi enginn séð fyrir þau áföll sem urðu við gröftinn. Sú áhætta að göngin yrðu fjármögnuð af almenningi hafi verið fyrir hendi og það hafi komið á daginn. „Það var haft rangt við. Ég sá – þegar ég fletti þessu upp  að ég sagði á sínum tíma í þinginu að þetta hafi verið keyrt í gegnum Alþingi með aðferð sem í handbolta heitir ruðningur.“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðvörunarorðin á rökum reist

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn ríkisábyrgðinni  í júní 2012. Hann leggur áherslu á að núna verði menn að takast á við vandamálið eins og það liggur. Klára þurfi göngin og reyna að leysa úr viðfangsefninu með skynsamlegum hætti. „Á sínum tíma var bent á það að þarna gætu verið óvissuþættir sem gerðu það að verkum að ábyrgð ríkisins yrði meiri en látið var í veðri vaka.“ Hann segir að auðvitað hafi menn ekki séð fyrir vandamálin við gröftinn. „En viðvörunarorðin hafa því miður reynst á rökum reist.“ Hann bendir á að óvíst sé hversu miklar endurheimtur ríkisins verði. Ætla megi að umferð verði meiri en áætlanir hafi gert ráð fyrir. „En það er algjörlega óljóst að hve miklu leyti það skilar sér í þessi göng.“

Birgir segir að þeir sem beittu sér fyrir þessari gangnagerð hafi verið keyrðir áfram af of mikilli bjartsýni og hafi látið hjá líða að taka tillit til óvissu og áhættu. „Þetta er mál sem var sérstakt að því leyti að bæði voru þetta kjördæmahagsmunir sem réðu ferðinni en það var líka þannig að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur bar ábyrgð á málinu og keyrði það áfram.“

Þvert á flokka

Frum­varp Odd­nýj­ar G. Harðardótt­ur, þá fjármálaráðherra, sem veitti ráðherra heim­ild til að und­ir­rita lána­samn­ing við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til ganga­fram­kvæmda fyr­ir allt að 8,7 millj­arða króna, var samþykkt á Alþingi í júní 2012. 29 greiddu atkvæði með málinu en 13 voru á móti. Allir þingmenn Norðausturkjördæmis studdu málið. Þrír stjórnarþingmenn þess tíma sátu hjá; Ásta Ragn­heiður Jó­hann­es­dótt­ir, Ólína Þor­varðardótt­ir og Auður Lilja Erl­ings­dótt­ir, sem var varamaður Árna Þórs Sig­urðsson­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert