Vill brúa Skerjafjörð og reisa nýja byggð

Hugmyndin er til þess fallin að létta mjög á umferð …
Hugmyndin er til þess fallin að létta mjög á umferð um stofnæðar höfuðborgarsvæðisins, að mati Björns Jóns. Stilla úr myndinni Skerjabraut

„Þessar tengingar eru hagsmunamál allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björn Jón Bragason, áhugamaður um skipulagsmál, við mbl.is. Hann hefur sent frá sér stutta heimildamynd um hugmyndir um byggingu brúar yfir Skerjafjörð, svokallaða Skerjabraut, og tengja þannig betur saman Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfjörð. Brúin gæti að mati Björns Jóns verið lykilþáttur í uppbyggingu tugþúsunda manna byggðar á Álftanesi.

Björn Jón hefur að eigin sögn haft áhuga á skipulagsmálum frá því hann var strákur. Hann segir að þeir vinirnir, Bolli Kristinsson, hafi lengi verið heillaðir af þeirri hugmynd að ráðast í byggingu Skerjabrautar. Þeir hafi viljað sýna fram á kosti framkvæmdarinnar á myndrænan og aðgengilegan hátt. Hann tekur þó fram að hugmyndin sé ekki ný af nálinni. Hún hafi fyrst verið sett fram af Trausta Valssyni 1973. Þá hafi Gestur Ólafsson, forstöðumaður Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins, tekið hugmyndina upp á sína arma og talað fyrir henni um 1980.

Stórskipahöfn ekki lengur á dagskrá

Björn Jón segir að það sem helst hafi staðið í veginum á þeim tíma hafi verið fyrirhuguð stórskipahöfn á Kársnesi; höfn sem ekki sé á döfinni í dag, enda sé höfnin á Kársnesi hugsuð fyrir minni báta.

Hann bendir á að helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins beri ekki lengur þann mikla fjölda bíla sem um þær fari. Þegar horft sé á höfuðborgarsvæðið sem eina heild blasi við að umferðarkerfið sé hálfklárað. Skortur sé á vegtengingum á milli sveitarfélaganna, enda séu stofnæðar hvers sveitarfélags hugsaðar frá austri til vesturs, en ekki frá norðri til suðurs. Þannig vanti ýmsar tengingar sem æskilegt væri að hafa. Hann nefnir veg um Fossvog og Sundabraut, sem aldrei hafi orðið að veruleika. „Á stórum köflum er þetta sprungið,“ segir hann og nefnir að öll umferðin út úr höfuðborginni tengist í einni trekt í Ártúnsbrekkunni.

Björn Jón Bragason er áhugmaður um skipulagsmál.
Björn Jón Bragason er áhugmaður um skipulagsmál. mbl.is/Rax

Styttra inn í Reykjavík

Björn Jón segir að margvíslegur ávinningur fengist af byggingu Skerjabrautar enda blasi við, ef öll landamæri séu fjarlægð, að Skerjafjörðurinn sé miðpunktur höfuðborgarsvæðisins. „Með vegtengingu yfir Skerjafjörð væri stór hluti umferðar tekinn út fyrir byggð, en mikil mengun og ónæði hlýst af umferðarþunga í Hlíðunum eins og allir þekkja. Garðbæingar og Hafnfirðingar yrðu mun skemur á leiðinni til Reykjavíkur, en brautin lendir í næsta nágrenni við stærstu vinnustaði landsins, Háskólana tvo, Landspítalann, stjórnsýsluna, flugvöllinn, auk margs konar verslunar og þjónustu,“ segir hann í myndinni. Hann bendir líka á að hægt yrði að nýta betur þá fjárfestingu sem liggur í atvinnuhúsnæði í miðbænum og á Seltjarnarnesi.

Hann segir að brautin yrði líka mikilvægur öryggisþáttur en eins og sakir standa geti umferðarþunginn í Reykjavík hamlað för forgangsbifreiða. Brautin væri til þess fallin að létta verulega á umferðarþunganum og dreifa álaginu betur.

Góð reynsla af landfyllingum

Björn Jón segir að flestar ef ekki allar aðgerðir sem rætt er um, þegar kemur að samgöngubótum, séu afar kostnaðarsamar. Þar nefnir hann hugmyndir um flugvöllinn, borgarlínu og dýrustu útfærslu Sundabrautar, framkvæmdir sem hlaupi sumar á tugum milljarða króna. Hann segir að Skerjabraut þyrfti alls ekki að vera svo dýr, enda sé að stærstum hluta mjög grunnt á því svæði sem hann sér fyrir sér að brautin yrði. Brúin sjálf þyrfti aðeins að ná yfir stuttan hluta leiðarinnar, sem í heild er um tveir kílómetrar. Hann bendir á að Íslendingar hafi góða reynslu af því að leggja vegi á landfyllingar og nefnir í því samhengi Sæbraut, Gilsfjarðarbrúa og veginn um Kjálkafjörð. „Það er mikilvægt í þessari umræðu að framtíðarsýnin sé raunhæf og hagkvæm,“ segir Björn Jón.

Hér má sjá hvernig Skerjabraut myndi líta út, gangi hugmyndirnar …
Hér má sjá hvernig Skerjabraut myndi líta út, gangi hugmyndirnar eftir. Stilla úr myndinni Skerjabraut

Ný byggð á Álftanesi

Hann sér fyrir sér að í kjölfar byggingar Skerjabrautar gæti mikil og blómleg byggð risið á Álftanesi. Þar liggi verðmætt byggingaland sem ekki sé nýtt í dag. Á þeim slóðum væri mjög eftirsóknarvert að búa, í ljósi nálægðar við miðbæ Reykjavíkur og veðursældar. „Ungt fólk vill búa í nálægð, reiðhjólafjarlægð, við gróinn miðbæ,“ segir hann við mbl.is.

Björn Jón sér líka fyrir sér að auðvelt væri að gera vegtengingu frá Bessastaðanesi, sem mætti nýta sem gott byggingarland, yfir á Kársnes. „Ég er sannfærður um að með brú yfir Skerjafjörð og mikilli uppbyggingu á Álftanesi getum við á næstu árum og áratugum byggt upp miklu skemmtilegri borg,“ segir hann í myndinni.

Umferðarvandinn blasir við

Björn Jón segir að þeir sveitarstjórnarmenn sem hann hefur rætt við séu mjög jákvæðir fyrir hugmyndinni. Hann hafi fengið mikil og góð viðbrögð við myndinni. „Mér finnst gaman að þessar gömlu hugmyndir séu núna að fá verðskuldaða athygli. Þetta er orðið raunhæfara núna en þetta var þá. Og umferðarvandinn blasir við okkur alls staðar.“

Hann bendir líka á í myndinni að hægt væri að ná sátt um flugvöllinn með því að hnika til neyðarbrautinni og færa hana út í sjó með landfyllingu. Hann segir afar mikilvægt að ná lendingu í flugvallarmálinu og telur að þessar hugmyndir geti verið skref í þá átt.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert