Búast má við röskunum á flugi

Búast má við röskun á flugsamgöngum seinni part dags.
Búast má við röskun á flugsamgöngum seinni part dags. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn talsmanns Icelandair stefnir í töluverða röskun á flugi félagsins seinni partinn í dag, bæði á lendingum og brottförum.

„Við hvetjum fólk til að fylgjast með brottfarar- og komutímum,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi flugfélagsins.

Einkum má búast við seinkunum á vélum félagsins sem héldu til Evrópu í morgun. „Þær eru venjulega að lenda hérna á milli kl. 15 og 16 en við gerum ráð fyrir að seinkun verði á því og að þær bíði jafnvel úti þangað til það sér fyrir endann á þessu veðri.“

Hann ítrekar að fólk fylgist vel með, enda sé ekki útséð um hvenær veðrið gangi niður.

Uppfært kl. 12:25:

Að sögn upplýsingafulltrúa WOW air hefur ferðum félagsins seinni partinn í dag verið flýtt um 20 til 30 mínútur. Farþegar hafa verið látnir vita og eins er hægt að fylgjast með brottfarar- og komutímum á vefsíðu félagsins.

Röskun á innanlandsflugi

Á vefsíðu Air Iceland Connect má sjá að öllu flugi á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar hefur verið aflýst það sem eftir er dags. Ekki hafði verið tekin ákvörðun um flug á milli Reykjavíkur og Egilsstaða þegar fréttin var skrifuð. 

Flug það sem eftir lifir dags er í athugun hjá Flugfélaginu Erni. Að sögn talskonu félagsins er vél nú á leið Húsavíkur en líklega verður síðari ferð dagsins ekki farin. Tvísýnt sé með flug félagsins til Hafnar í Hornafirði, en verði það farið er líklega um síðasta flug Ernis í dag að ræða, enda fari veður versnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert