Rúmlega 400 milljónum stungið undan skatti

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Skattrannsóknarstjóri hefur til rannsóknar meinta aðild öryggisfyrirtækisins 115 Security að skattsvikum undirverktaka þess á árunum 2011-2014. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag en málið snýst um samninga á milli fyrirtækjanna um mönnun öryggisgæslu upp á allt að 700 milljónir króna. 

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að grunur leiki á að um hafi verið að ræða svarta starfsemi og svokallaða gerviverktöku þar sem starf launamanns er gert að verktakastarfi með það fyrir augum að komast hjá skattgreiðslum. Er talið að með þessu móti hafi rúmlega 400 milljónum verið stungið undan skatti.

Er meðal annars til rannsóknar hvort öryggisfyrirtækið hafi átt þátt í meintum skattsvikum, en undirverktakarnir, sem eru níu talsins, eru allir komnir í gjaldþrot og hafa hætt starfsemi.

Framkvæmdastjóri 115 Security, Friðrik Sverrisson, segir fyrirtækið hafa dregist inn í rannsókn skattrannsóknarstjóra að ósekju en það er eitt af dótturfélögum Öryggismiðstöðvarinnar.

Skattamál undirverkaka komi 115 Security ekkert við og samningum við þá hafi verið rift þegar fyrirtækinu hafi verið gert viðvart um hugsanleg skattsvik. Undirverktakarnir eru allir komnir í þrot í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert