Vestan garri en líkur á glitskýjum

Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.

Útlit er fyrir suðvestan kalda eða strekking í dag 8-15 m/s, með rigningu og súld og hita á bilinu 5 til 10 stig. Það hvessir síðan seint í dag og í kvöld má svo búast við að það slái í vestan hvassviðri eða storm um landið norðanvert og eru gular viðvaranir Veðurstofunnar í gildi á þeim svæðum.

Einnig má búast við mjög snörpum vindstrengjum austan undir Öræfajökli þar sem útlit er fyrir að vindur slái sér niður af jöklinum. Með vestan garranum færist þurrara og kaldara loft yfir landið og í kvöld og nótt styttir því upp að mestu og rofar til. Það mun síðan smám saman draga úr vestan belgingnum eftir hádegi á morgun og útlit er fyrir hið rólegasta veður á landinu á sunnudag.

Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands bendir svo í hugleiðingum sínum á að líkur séu á að glitský myndist yfir landinu á morgun og verði sjáanleg. „Glitský eru litskrúðug ský sem myndast í heiðhvolfinu, oft í um 15-30 km hæð yfir jörðu. Þau eru því miklu hærra á lofti en venjuleg ský, en þau eru í veðrahvolfinu sem er í 0-10 km hæð yfir jörðu,“ segir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert