Filippo Berio á NM í Lego-forritun

Elmar Beckers og Jökull Alfreð Árnason úr Garðaskóla á Íslandi …
Elmar Beckers og Jökull Alfreð Árnason úr Garðaskóla á Íslandi sigra lið frá Drammen í Noregi í þriðju viðureign sinni á NM í FIRST LEGO League í Ósló í dag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Íslenska keppnisliðið Filippo Berio úr Garðaskóla í Garðabæ hafnaði í 27. – 28. sæti á Norðurlandameistaramóti FIRST LEGO League, hönnunar- og tæknikeppni sem gengur út á að útbúa og forrita vélmenni úr Lego-kubbum til að leysa þrautir, en mótið fór fram í Ósló í Noregi í dag og voru 45 keppnislið frá Danmörku, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð mætt til leiks ásamt átta „Junior“-liðum sem skipuð eru 6 – 9 ára keppendum.

Ólífuolía kemur lítið við sögu í hildi þessari þrátt fyrir nafn liðsins heldur er það vatn sem er þema þrautanna í ár og keppendum uppálagt að leysa nokkur verkefni sem byggjast á vatni, svo sem að láta vélmenni sín flytja vatnsílát og koma þeim á ákveðna staði á keppnisborði þar sem hindranir standa í veginum.

Tíundubekkingarnir fimm úr Garðaskóla, þeir Elmar Beckers, Haukur Georgsson, Ingvi Freyr Stefánsson, Jóhann Baldur Jóhannsson og Jökull Alfreð Árnason, voru mættir í höfuðstöðvar norska olíufyrirtækisins Statoil á Fornebu í morgun, þar sem keppnin fór fram, ásamt liðsstjóranum Ragnheiði Stephensen, sem einnig er kennari piltanna í valfaginu FLL í Garðaskóla sem gengur sérstaklega út á undirbúning og keppni á þessum vettvangi, en forsaga þátttöku þeirra er að þeir fóru með sigur af hólmi í FIRST LEGO-keppninni á Íslandi 11. nóvember þar sem á annað hundrað grunnskólanema öttu kappi í forritun vélmenna í Háskólabíói.

Frétt mbl.is: Forrituðu Lego-vélmenni í Háskólabíói

„Reyna að finna lausn“

Stigagjöf keppninnar deilist í fernt og gengur veigamesti þátturinn út á að hanna og forrita vélmennið auk þess að útskýra vinnuna sem þar býr að baki. Sá hluti gildir 50% og skiptist í forritunina og verkfræðiviðtal við dómendur en annan hluta mætti kalla fræðilegan og er svokallað þemaverkefni þar sem keppnisliðin koma fram á sal í höfuðstöðvum Statoil og kynna tæknilegu hliðina á verkefninu með fyrirlestri auk þess að svara spurningum. Fást þar 30%. Þá er markaðssetning en þar er metið, og gildir 10%, hvernig liðin kynna sjálf sig í sérstökum kynningarbásum sem þeim er úthlutað. Að lokum er dæmt út frá liðsheild, síðustu 10%, en þar meta dómarar heildarframmistöðuna og hvernig liðið samsvarar sér inn og út á við.

Íslenska liðið ásamt liðsstjóra sínum og kennara úr Garðaskóla, Ragnheiði …
Íslenska liðið ásamt liðsstjóra sínum og kennara úr Garðaskóla, Ragnheiði Stephensen. Lego-vélmenni þeirra er fremst á myndinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í vélmennahlutanum, þeim verklega, hlaðast stigin upp á meðan vélmennið kemur hlutunum frá sér á rétta staði og forðast hindranir en á móti koma refsistig þegar vatnsílát eru sett á ranga staði, vélmennið missir þau eða gerir aðra skráveifu.

Það var liðið Septem frá Bodø í Noregi sem bar sigur úr býtum í dag og hefur reyndar tekið þátt í keppninni síðan árið 2012 þegar keppendur voru börn að aldri. Í ár höfðu liðsmenn klárað fermingarpeningana sína við að standa undir þátttökunni þegar norska verslunarkeðjan Coop hljóp undir bagga og gerðist styrktaraðili þeirra en frá þessu greinir staðardagblaðið Avisa Nordland.

Hluti af stigagjöf keppninnar fólst í því að liðin héldu …
Hluti af stigagjöf keppninnar fólst í því að liðin héldu úti eigin bás í lið sem kallast markaðssetning, kynntu þar sjálf sig og land sitt. Íslenska liðið kynnti þar auðvitað meðal annars íslenskt vatn enda byggðist höfuðþraut keppninnar á vatni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Jökull Alfreð hefur orð fyrir sínum mönnum í Filippo Berio. Vegna eigin anna við keppnina náðu þeir félagar ekki að fylgjast með vélmenninu frá Septem og vinnubrögðum þess hóps en Jökull segir, spurður um hvað það sé sem skilji milli feigs og ófeigs í forritun Lego-vélmenna, að það sé helst vinnan. „Þetta er mest „trial and error“, reyna að finna lausn. Forrita hana og reyna aftur og aftur þar til þetta virkar, eða virkar ekki. Og þá er önnur lausn reynd aftur og aftur þar til við náum henni.“

Raungreinarnar heilla

„Ragga er mest bara að passa að við gerum ekkert af okkur,“ segir Jökull þegar hann er inntur eftir því hvernig til samvinnu liðsins við liðsstjóra sinn og kennara hafi komið. Hann segir þá fimmmenninga í liðinu vera vinahóp en hins vegar hafi þeir án þess að vita af því innbyrðis allir valið FLL-valgreinina hjá Ragnheiði, „Það var bara tilviljun að við erum vinir,“ segir hann og bætir því við að raungreinarnar heilli þá vinina og líklegt sé að verkfræði- eða tæknilegt nám bíði þeirra í framtíðinni. Þegar spurt er hvað við taki þegar gagnfræðaskólinn útskrifi þá í vor líta liðsmenn Filippo Berio hver á annan og játa að það sé þó ekki ákveðið í neinum smáatriðum.

Liðsmenn Filippo Berio etja sköpunarverki sínu út á vígvöllinn í …
Liðsmenn Filippo Berio etja sköpunarverki sínu út á vígvöllinn í annarri umferð, forrituðu Lego-vélmenni sem á að flytja mismunandi ílát með vatni um hindrunarbraut. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við lögðum vinnu í þetta en við bjuggumst aldrei við því að við gerðum nógu mikið til að vinna keppnina,“ segir Jökull þegar talið berst að forkeppninni á Íslandi en lagt er upp með sömu þrautir á Norðurlandameistaramótinu og í forkeppnunum sem fara fram innan hvers þátttökulands. Jökull og félagar meta það svo að þeir hafi þó æft töluvert og nokkur fjarvera frá kennslustundum hafi fylgt keppnisundirbúningnum en stjórnendur Garðaskóla hafi staðið vel við bakið á þeim og þeir fengið þær tilslakanir sem til þurfti vegna FLL-keppninnar sem náði hámarki sínu í Ósló í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert