Íþyngjandi frelsistakmarkanir hér á landi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, byrjaði ræðu sína á að ítreka hversu vel Íslendingum vegnar og sagði lífskjör vera með því besta sem gerist í heiminum. „En þrátt fyrir góða stöðu og jákvæðar horfur, er ekki þar með sagt að á Íslandi sé ekkert sem megi bæta, breyta eða lagfæra. Enn eru íþyngjandi takmarkanir á efnahagslegu og persónulegu frelsi við lýði hér á landi, takmarkanir sem skerða sjálfsákvörðunarrétt og atvinnufrelsi fullorðins fólks.“

Hún sagði aukið frelsi og frjálslyndi lykilþátt þegar kæmi að lífskjörum almennings. „Það á þess vegna að vera skýr stefna okkar að auka frelsi fólks til þess að haga sínu lífi eins og það sjálft ákveður, svo lengi sem það skerðir ekki þetta sama frelsi annarra.“

„Í því samhengi er rétt að nefna að sumir flokkar og einstaka stjórnmálamenn gefa sig út fyrir að vera frjálslyndir án þess að vera það í raun og veru. Það er ekki frjálslyndi eitt og sér þegar stjórnmálamenn telja sig hafa góðar og réttlátar skoðanir. Stundum eru það þeir sem hæst tala um frjálslyndi sem eru þó alltaf tilbúnir að kjósa með opinberri íhlutun og íþyngjandi aðgerðum í nafni umhyggju fyrir velferð almennings. En er þar er í raun á ferð, forsjárhyggja þess sem öllu vill ráða.“

Áslaug Arna sagði þær þjóðir sem náð hafi mestum framförum á síðustu árum, áratugum og öldum, séu þær þjóðir sem notið hafi hvað mest frjálslyndis. Hún sagði frelsi ekki skikkju sem hægt væri að sveipa um sig þegar hentaði í pólitískri baráttu og rétt fyrir kosningar.

„Ég vonast til þess að allir flokkar taki höndum saman á þessu þingi og beiti sér fyrir sjálfsögðum frjálslyndismálum, almenningi til hagsbóta. Þannig getum við endurgoldið kjósendum það traust sem okkur var sýnt þegar við vorum kosin til þess að taka sæti á þessu þingi, með því að treysta kjósendum til að ákveða hvað þeim er sjálfum fyrir bestu,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert