Andri Snær: „Augljós skekkja“

Andri Snær segir að styðja verði betur við þau sem …
Andri Snær segir að styðja verði betur við þau sem búa til efni á íslensku sem er skemmtilegt. Samsett mynd

Andri Snær Magnason rithöfundur bendir á að ríkið tryggi aðeins fulla vinnu fyrir tvo til að skrifa íslensku á meðan það tryggi vinnu fyrir 13 þúsund manns sem kenna börnum að lesa. Segir hann augljósa skekkju vera. 

Andri Snær tjáir sig í færslu á Facebook en tilefni skrifanna eru niðurstöður Pisa-könnunar sem sýnir að íslenskum börnum hefur farið aftur í lesskilningi. 

„Það eru um 8.500 starfsmenn í grunnskólum á Íslandi, um 1.800 í félagi framhaldsskólakennara og svo eru um 2.400 í félagi leikskólakennara. Lestur og læsi er kjarninn í starfseminni sem byggir síðan að einhverju leyti á góðum bókum eða texta sem hægt er að lesa. Það eru hins vegar aðeins tveir íslenskir barnabókahöfundar sem fá svokölluð „full árslaun“ í ár, þegar ég skrifaði Tímakistuna var ég sá eini,“ skrifar Andri Snær. 

Tugmilljarðar fara í að kenna lestur og læsi

Hann bendir á að á næsta ári fái samtals 12 höfundar full laun til að skrifa á íslensku. Um sé að ræða 500 þúsund króna verktakagreiðslu sem jafngildi um 355 þúsund krónum í föstum launum. Aðrir fái 9, 6 eða 3 mánuði. 

„Starfsöryggi er ekkert, uppsagnarfrestur enginn og jafnvel þótt þú hafir fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs geturðu verið kominn upp á guð og gaddinn upp úr miðjum aldri. 70 íslenskir rithöfundar skipta á milli sín 270 milljónum, en það er c.a kostnaður við 15 framhaldsskólakennara. Þessir einstaklingar þurfa síðan að sitja undir óhróðri við árlega úthlutun og helst þakka fyrir sig. Við þurfum að skrifa og þýða bækur fyrir 100.000 börn og ungmenni með fjölbreyttan bakgrunn um bókstaflega allt milli himins og jarðar, himingeiminn, ævintýri, ást og Íslandssöguna,“ segir Andri Snær. 

Hann segir tugmilljarða fara í að kenna lestur og læsi en nánast ekkert í að styðja þá sem búa til efni sem er skemmtilegt að lesa ef við ætlum að orða heiminn á íslensku.

„Orsakir slakrar Pisa-könnunar eru margvíslegar, TikTok, Playstation og iPhone eiga sín prósentustig, foreldrar eru líka í símanum, en það er augljóst að við höfum vanrækt rótina og frumsköpunina. Enn og aftur 13.000 manns í vinnu sem byggir á læsi, tveim tryggð full vinna til skrifta. Það er augljós skekkja,“ segir Andri Snær að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert