Efstu ríkin upplýsa sína grunnskóla

Hér á landi hefur Menntamálastofnun neitað að upplýsa skóla um …
Hér á landi hefur Menntamálastofnun neitað að upplýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveimur könnunum. Ljósmynd/Colourbox

Menntamálayfirvöld Finnlands og Eistlands upplýsa grunnskóla ríkjanna um árangur þeirra í PISA-könnuninni. Þetta segja PISA-verkefnastjórar beggja ríkja í svörum við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Hér á landi hefur Menntamálastofnun neitað að upplýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveimur könnunum, árin 2022 og 2018, eins og Morgunblaðið greindi frá á miðvikudag.

Eistland er efst Evrópulanda í nýjum niðurstöðum PISA-könnunarinnar. Finnland er efst Norðurlandaþjóða en Ísland er þeirra neðst og raunar nálægt botni alls listans. Könnunin er lögð fyrir 15 ára börn og reynir á lesskilning, stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi.

„Við gefum nafnlausar niðurstöður til hvers skóla sem tekur þátt í PISA. Skólinn sér einungis stöðu sína í samanburði við aðra. Til samanburðar sýnum við þeim líka meðaltal Eistlands og OECD,“ segir Gunda Tire, verkefnisstjórinn fyrir Eistland, í svari sínu.

„Af hverju gerum við það? Því að skólar vilja endurgjöf sem þeir geta notað til að meta sig sjálfa. Og þetta eru nokkurs konar þakkir okkar fyrir þátttöku þeirra.“

Um helmingur eistneskra nema þreytir PISA-prófið, eða tæplega 6.400 nemendur.

Vilja gefa skólunum til baka

Í Finnlandi tók 241 skóli þátt í prófinu að þessu sinni og var það lagt fyrir um 10.000 nemendur. Menntamálayfirvöld þar í landi hafa veitt grunnskólum sínar niðurstöður frá upphafi, eða frá árinu 2003.

„Ástæðan er sú að við viljum gefa eitthvað til baka til skólanna,“ segir finnski verkefnastjórinn Arto K. Ahonen. „Jafnvel þótt PISA-rannsóknin sé byggð á sýnum og að niðurstöður á skólastiginu feli í sér mikla óvissu, og samanburður á milli skólanna sé ekki mögulegur, þá teljum við mikilvægt að skólarnir fái niðurstöður könnunar sem þeir hafa lagt mikinn tíma og mikla vinnu í.“

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla hefur gagnrýnt Menntamálastofnun fyrir að afhenda skólum ekki upplýsingar um árangur sinn. Þær hafi áður fyrr komið að góðum notum við mótun kennslunnar.

Gátu séð hvar skórinn kreppti

„Við sáum bara hvar skórinn kreppti og hvar ekki. Það sýndi sig að það bætti árangur,“ sagði hann í Morgunblaðinu á miðvikudag.

Þegar gagnrýnin var borin undir Menntamálastofnun svaraði hún skriflega og sagði megintilgang könnunarinnar að gefa heildarmynd af þekkingu og færni nemenda í þátttökulöndum við lok skólaskyldu þeirra.

Hún væri ekki til þess fallin að veita áreiðanlegar upplýsingar um frammistöðu fámennra nemendahópa eins og þeirra sem tilheyrðu einstökum skólum. Jón Pétur segir það pólitíska ákvörðun að halda niðurstöðunum leyndum.

„Það hefur enginn svarað fyrir það öðruvísi en með því að segja að þetta sé bara próf til að mæla kerfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert