„Ég er himinlifandi“

Vilhjálmur Birgisson sést hér mæta til fundar í Karphúsinu fyrr …
Vilhjálmur Birgisson sést hér mæta til fundar í Karphúsinu fyrr í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er himinlifandi,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness en skrifað var undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í húsakynnum Ríkissáttasemjara nú síðdegis.

„Ég finn fyrir mjög miklum létti enda höfum við verið hér í þessu húsi nánast frá því 28. desember og höfum verið hér laugardaga og sunnudaga síðustu þrjár helgar. Því fylgir einnig léttir að við séum að ná því sem stefnt var að og ég tel að svo sé. Ég er því mjög stoltur af mínu fólki og þeim sem hafa staðið að þessari breiðfylkingu. Ég er mjög ánægður og stoltur af því sem við höfum verið að gera.“

Eins og fram hefur komið er meginmarkmið aðila á markaði að ná niður verðbólgunni og fylgja því vonandi vaxtalækkanir hjá Seðlabankanum. Vilhjálmur telur að um tímamótasamning sé að ræða.

Hófstilltir samningar

„Ég tel að við séum að gera hér tímamótasamning sem byggist upp á þessum megin markmiðum að ná niður verðbólgu og vöxtum. Vextirnir hafa verið að leika íslenskt samfélag í heild sinni afar grátt. Við hlustum á Seðlabankann og það sem Seðlabankinn hefur að segja. Bankinn hefur talað um að það skipti máli hvernig sé samið á vinnumarkaði og við höfum skoðað kostnaðarmat bankans. Seðlabankinn þarf að taka þátt í þessu verkefni með okkur og nú er boltinn hjá honum. Aðrir í íslensku samfélagi þurfa einnig að gera það og ríki og sveitarfélög ætla að stilla gjaldskrám í hóf. Ég vil þakka stjórnvöldum fyrir þeirra aðkomu,“ segir Vilhjálmur og segir samningana vera hófstillta á heildina litið. 

„Ofan á þetta tókst okkur að leiðrétta kjör ræstingafólks í þessum kjarasamningum sem hefur verið á lökustu kjörunum í íslensku samfélagi allt of lengi ef þannig má að orði komast. Þetta eru mikið kvennastörf og við tókum þessi störf svolítið út fyrir sviga. Segja má að þau fái 13% launahækkun. Engu að síður eru þessir kjarasamningar hófstilltir og eru innan þess ramma sem við höfum miðað við. Við bætum einnig réttindi á hinum ýmsu sviðum sem kostar ekki mikið en skiptir launafólk máli,“ segir Vilhjálmur Birgisson. 

Vilhjálmur og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ræða hér við …
Vilhjálmur og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ræða hér við starfsfólk sáttasemjara eftir að niðurstaðan lá fyrir í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert