Missa einn dag því fluginu var flýtt

Golfarar á Spáni ýmist lengja eða stytta golfferð sína vegna …
Golfarar á Spáni ýmist lengja eða stytta golfferð sína vegna breytingar á flugtíma. Ljósmynd/Colourbox

Golfarar á vegum Golfskálans sem dvelja nú á Spáni munu missa einn dag af golffríinu því heimferðinni var flýtt um einn dag. Ingibergur Jóhannsson, eigandi Golfskálans, segir ástæðuna þá að Icelandair hafi þurft á flugvél fyrr að halda en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Því þarf að flytja farþega heim á páskadag í stað þess að flytja þá heim á annan í páskum. 

„Það vantar flugvél hjá Icelandair og því var breyting á flugdegi,“ segir Ingibergur. 

Verið að skoða réttarstöðu 

Farþegar fengu póst þar sem málið var útskýrt. Á móti mun hins vegar annar hópur golfara fá auka dag í sólarsælunni.

„Þeir sem eru úti núna fá golf á heimfeðardeginum en svo er flogið heim um kvöldið. Það er því gisting sem dettur út. En þeir sem eru að koma út á páskadag verða einum degi lengur án þess að vera rukkaðir meira,“ segir Ingibergur. 

Hann segir að málið hafi komið snögglega upp og menn séu að átta sig á stöðunni. „Þetta er ekki í fyrsta skiptið og ekki í síðasta skiptið sem færa þarf til flug. Við eigum eftir að funda með Icelandair út af þessu. Eins og fólki var tilkynnt þá er verið að skoða réttarstöðu farþeganna líka,“ segir Ingibergur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert