„Þetta var stórfurðulegur þjófnaður“

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn voru handteknir í Grindavík í gærkvöldi en þeir eru grunaðir um þjófnað í bænum.

„Það voru tveir menn handteknir upp úr klukkan átta í gærkvöldi. Þeir voru að hnupla einhverjum álplötum úr tveimur fiskkörum fyrir utan vélsmiðju. Þetta var alveg stórfurðulegur þjófnaður,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, hjá lögreglunni í Grindavík, í samtali við mbl.is.

Hjálmar segir að mennirnir séu enn í haldi og rannsókn standi yfir.

Töluvert hefur borið á óæskilegum mannaferðum í Grindavík og á dögunum greindi íbúi í Grindavík frá því að hann hefði séð ókunnan mann fara inn í bíl hans á bílastæði.

Þá var járnamottum að virði 1,2 milljóna króna stolið af raðhúsalóð við Fálkahlíð í vikunni.

„Við erum að reyna að herða eftirlitið og farnir að biðja fólk um skilríki áður en það kemur inn í bæinn,“ segir Hjálmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert