Slasaðist á vélsleða og gæti hafa lent í snjóflóði

Björgunarfólk á vélsleðum og snjóbílum hélt á staðinn og hlúði …
Björgunarfólk á vélsleðum og snjóbílum hélt á staðinn og hlúði að þeim slasaða. Ljósmynd/Landsbjörg

Maður slasaðist á vélsleða á Nykurtjörn við Húsavík fyrr í dag og er talið mögulegt að hann hafi lent í snjóflóði, skammt frá skíðasvæðinu á Húsavík.

Þetta segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.

„Það var tilkynnt að hann hefði lent í snjóflóði,“ segir Jón og bætir við að snjóflóðahætta sé á þessu svæði. Hann segir þó ekki hægt að staðfesta að um snjóflóð hafi verið að ræða þótt útkallið hafi gefið það til kynna.

Fluttur í sjúkrabíl

Björgunarsveitin Garðar á Húsavík fór í útkallið ásamt Hjálparsveit skáta í Aðaldal. Útkallið barst um klukkan 14 og var manninum bjargað fyrir klukkan 16.

Björgunarfólk á vélsleðum og snjóbílum hélt á staðinn og hlúði að þeim slasaða, bjó um hann og kom í sjúkrabörur. Í þeim var viðkomandi fluttur að björgunarsveitarbíl sem flutti hann áfram í sjúkrabíl.

Rétt fyrir klukkan 16 voru svo allir viðbragðsaðilar komnir út af hættusvæðinu og á leið heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert