Glíma við gróðurelda við Grindavík

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn …
Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn 25.mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litl­ar breyt­ing­ar hafa orðið í eld­gos­inu við Sund­hnúkagíga í nótt. Þrír gígar eru virkir og hraunflæðið er svipað og síðustu daga. Þá hefur slökkviliðið í Grindavík verið að glíma við gróðurelda í kringum hrauntunguna. 

„Við erum að fylgjast vel með og erum tilbúnir að bregðast við því ef þetta breiðir úr sér,“ seg­ir Ein­ar Sveinn Jóns­son, slökkviliðsstjóri í Grinda­vík, við mbl.is.

Erfitt aðgengi að eldunum

Hann segir að um sé að ræða tiltölulega litla gróðurelda á afmörkuðu svæði en aðgengið sé ekki gott. Slökkviliðið notar dróna sem fljúga yfir svæðið til að fylgjast með.

Slökkviliðið hefur síðustu daga farið að hrauntungunni og bleytt grasið til að halda eldunum niðri. 

Spurður um hvort líklegt sé að eldarnir nái að breiða úr sér segir Einar að það sé þurrt á svæðinu og engin rigning í veðurspánni næstu daga. Slökkviliðið sé þó vel mannað og fylgist vel með.

Svifryk í andrúmsloftinu

Veðurstofunni hefur borist tilkynning um svifryk vegna gróðureldanna á svæðinu. Þetta staðfestir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Einnig hefur aðeins mælst af brenni­steinst­víoxíði (SO2) í andrúmslofti en ekki í neinum hættulegum gildum, segir hún.

Búist er við því að mengunin fari til suðvesturs í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert