„Erum á ögurstundu í lýðveldissögunni“

Arn­ar Þór Jóns­son mætti og skilaði inn framboði sínu í …
Arn­ar Þór Jóns­son mætti og skilaði inn framboði sínu í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Jónsson segist vera tilbúinn í kosningabaráttuna fram undan í samtali við mbl.is eftir að hann skilaði inn undirskriftalistum með meðmælendum til Landskjörsstjórnar.

„Ég kem sterkur til leiks. Það gekk mjög vel að fá undirskriftir og ég þurfti ekkert fyrir þessu að hafa ef ég segi alveg eins og er,“ segir Arnar Þór.

Hvernig forseti verður Arnar Þór?

„Ég mun standa vaktina fyrir almenning í landinu. Ég mun fylgjast með því að gætt sé í hvívetna að stjórnarskrá lýðveldisins og að lýðræðinu okkar. Eins því sem ég stend fyrir, klassísku frjálslyndi og mannréttindum í landinu,“ segir Arnar Þór.

Heldurðu að þú munir taka virkari þátt en fyrrverandi forsetar?

„Ég held að forsetinn verði að gera það því við erum á ögurstundu í lýðveldissögunni,“ segir Arnar Þór.

Hvað ertu þá að vísa í?

„Ég er að vísa í það að við erum búin að búa við bremsulaust stjórnarfar í 30 ár. Auk þess seilast erlend stórfyrirtæki og erlendir fjárfestar eftir auðlindum Íslands. Íslendingar verða að standa vörð um landið sitt, auðlindirnar og fólkið sitt,“ segir Arnar Þór.

Gengurðu bjartsýnn inn í þessa kosningabaráttu?

„Já ég geri það. Ég geri það fullur af eldmóði og keppnisskapi. Ég mun láta til mín taka í þessu, en að sjálfsögðu málefnalega og kurteisilega,“ segir Arnar Þór.

Minnir eiginkona hans, Hrafnhildur Sigurðardóttir, einnig á það að öllum sem vilja sé boðið til fagnaðar í Iðnó í kvöld klukkan 20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert