Forritun verður hluti af námi

Rakel Sölvadóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Skema.
Rakel Sölvadóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Skema.

Skema er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum til að efla menntun í takt við tækniþróun. Skema hefur unnið að uppbyggingu á aðferðafræði byggðri á rannsóknum í sálfræði, kennslufræði og tæknifræði til að kenna forritun frá 6 ára aldri. Félagið fagnar ársafmæli sínu nú í júlímánuði og er þegar komið með fjóra starfsmenn í fullu starfi auk nokkurra í hlutastarfi.

Skema var stofnað af Rakel Sölvadóttur og Laufeyju Dís Ragnarsdóttur, tölvunarfræðingum og sálfræðinemum við Háskólann í Reykjavík. Laufey er farin frá félaginu til frekara náms og stýrir Rakel því nú en auk hennar á Háskólinn í Reykjavík 15% hlut í félaginu en gengið var frá samstarfinu fyrir stuttu. Skrifstofa Skema er í húsakynnum háskólans og samstarfið mikið.

Samstarf við CCP

Skema ehf. var stofnað í framhaldinu af því að hugmyndin ,,Börnin í Undralandi Tölvuleikjanna" hlaut titilinn ,,Fræ ársins 2011". Í kjölfar þess hefur verið gengið frá samstarfi við ýmsa aðila. Félagið stendur fyrir námskeiðum í forritun fyrir börn, unglinga, kennara og undirbúning fyrir háskólanám. Auk námskeiðahalds er unnið að innleiðingu á forritun í grunn- og framhaldsskóla landsins. Félagið sér einnig um verkefnastýringu á innleiðingu spjaldtölva hjá Hjallastefnunni auk innleiðingar á kennslu í forritun og rannsóknum á áhrifum slíkrar kennslu á hugrænan þroska, líðan og árangur í öðrum námsgreinum.

Í samstarfi við HR og Fjölbrautaskólann í Breiðholti með stuðningi frá tækniþróunarsjóð er einnig unnið að þróun á kennslukerfi og kennsluefni byggt á aðferðafræði Skema til að gera kennurum kleift að kenna sérhæfð fög eins og forritun. Einnig hefur verið gengið frá samstarfi við leikjaframleiðandann CCP sem mun bæði styrkja félagið fjárhagslega og með þátttöku í uppbyggingu á tæknimenntun.

Vilja á erlendan markað

Að sögn Rakelar nær félagið að mestu að fjármagna sig með námskeiðahaldi, stuðningi og styrkjum en það hefur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði, Þróunarsjóð námsgagna og Atvinnumálum kvenna. En það kemur að því að auka þurfi fjármögnun til að halda kerfisþróun á góðu skriði og hefja útrás á erlendan markað. Stefna félagsins er að 70% grunnskóla landsins bjóði upp á kennslu í forritun fyrir árið 2015.

,,Við erum ekki einungis að kenna forritun heldur gefa kennurum og börnum tækifæri á að útvíkka kennsluaðferðir og nýta forritunarumhverfið til að leysa verkefni í öðrum námsgreinum. Börnin eru þannig að fá áhugaverða og skemmtilega sýn inn í það nám sem þau stunda í dag,” sagði Rakel.

Að gera forritun skemmtilega

Á námskeiðum Skema fá þátttakendur kennslu og innsýn í möguleika tækninnar á skemmtilegan og áhugaverðan máta. Kennslan byggir á leikjaforritun auk þess sem fléttað er inn í kennsluna hugarkortum og flæðiritum við ,,hönnun” leikjanna.  Markmið námskeiðanna er að að þátttakendur sjái forrit verða að veruleika auk þess sem þátttakendur munu sjá hvað forritun getur verið skemmtileg og áhugaverð segir Rakel.

Rakel segir að mikillar jákvæðni gæti með námskeið Skema, áhrifamátt þeirra og aðferðafræði. Nú þegar eru vísbendingar um að kennslutækni Skema geti bætt árangur barna í öðrum námsgreinum. ,,Sérstaklega eru vísbendingar um að stærðfræðigeta stráka aukist ásamt því sem jákvæðra áhrifa gætir á árangur í íslensku samkvæmt frumrannsókn sem gerð var hjá 9 ára börnum í Vífilsskóla í vor,” sagði Rakel. Áframhaldandi rannsóknir eru fyrirhugaðar en lítið hefur verið rannsakað á þessu sviði síðan um 1980.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert